150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að fletta upp í greinargerðinni til að finna nákvæmt orðalag en skemmst er frá því að segja að hugsunin með þessari tillögu er að eftirlitið myndi líka fela í sér eftirlit með beitingu skotvopna og vissulega framkvæmd hlerana og þess háttar, í raun og veru öllu sem varðar störf lögreglunnar gagnvart borgaranum. Vel á minnst, það á ekki einungis við um alvarleg brot heldur jafnvel hugsanlega sérstaklega þau sem eru ekki alvarleg. Alvarlegustu brotin koma fyrir ríkissaksóknara, fara fyrir dóm. Það eru til dómsmál þegar lögreglumenn brjóta af sér, beinlínis brjóta landslög eða því um líkt. Sum okkar vilja þó meira. Við viljum að starfshættirnir sjálfir séu til fyrirmyndar og að það sé brugðist við þegar þeir eru ekki til fyrirmyndar. Þá er ekki endilega um lögbrot að ræða eða að eitthvað hafi farið úrskeiðis heldur þarf að tryggja að ekkert hafi farið úrskeiðis þegar lögreglan á í hlut, t.d. alltaf þegar mannslát verður. Það þarf alltaf rannsaka það, alveg sama hvað. Jafnvel þótt engum detti í hug fyrir fram að neitt athugunarvert af hálfu lögreglunnar hafi átt sér stað er mikilvægt að það sé gert alveg skýrt.

Í því felst líka hinn þáttur tillögunnar, sem mér heyrist á andsvörum annarra hv. þingmanna að hafi ekki verið alveg nógu ljóst og kannski er framsögu minni um að kenna, að þetta snýst líka um að vernda lögreglumenn fyrir því að verða fyrir óþarfri tortryggni. Eðli starfsins er þannig að það elur af sér tortryggni. Allt vald elur eðlilega af sér tortryggni og það er hægt að koma til móts við það með því að hlusta vel og bregðast við með ferlum sem veita aðhald og mótvægi. Það er það sem felst í tillögunni.

Ég get ekki afmarkað nákvæmlega hvernig frumvarpið myndi líta út, enda fjallar tillagan um að forsætisnefnd semji slíkt frumvarp þar sem verði kannski farið af meiri nákvæmni út í það hvaða ramma eigi að sníða að þessu. Ég hygg af efni greinargerðarinnar, þótt ég geti ekki lesið orðrétt upp fyrir hv. þingmenn með þennan litla tíma, (Forseti hringir.) að skilaboðin ættu að vera skýr. Þetta er almennt eftirlit með lögreglu og allri þeirri valdbeitingu sem hún þarf að geta beitt í störfum sínum.