150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vel athugandi að skoða hvort tillögutextinn sé of þröngur. Það eitt að hann veki slíkar spurningar hjá hv. þingmanni segir okkur að það er vel athugandi að skoða það og þá útvíkka hann eftir atvikum. Þegar um 15 blaðsíðna tillögu er að ræða setur fólk kannski mesta púðrið einmitt í greinargerðina. Hvað varðar það hvort eftirlitið gæti átt heima undir umboðsmann Alþingis er það nokkuð sem við hugsuðum svolítið mikið um á sínum tíma og niðurstaða okkar varð sú að svo væri ekki. Það er fyrst og fremst vegna þess að umboðsmaður Alþingis hefur það vítt svið og tekur við kærum varðandi allt sem kemur frá framkvæmdarvaldinu og þótt víðar væri leitað. Í dag er það í eðli sínu þannig að þessi mál færu til umboðsmanns Alþingis en að okkar mati er við hæfi að hafa sérstaka stofnun um lögregluna vegna þess að hún hefur þetta sérstaka vald sem aðrar stofnanir framkvæmdarvaldsins hafa ekki sem er að beita fólk líkamlegu valdi. Á ensku er sagt að lögreglan hafi (Forseti hringir.) einkaleyfi á ofbeldi, óvarlega orðað, en hún hefur sérstakar tegundir af valdi og við töldum við hæfi að hafa sérstaka stofnun til að veita aðhald og mótvægi við það.