150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Þetta hefur verið góð umræða en nauðsynlegt að ég komi hér upp vegna þess að í andsvörum áðan varð framsögumanni tíðrætt um að ég væri móðgaður fyrir hönd lögreglunnar. Ég er það reyndar ekki, ég ætti kannski að vera það en ég er það ekki. Það kom upp í huga mér, þegar ég var að hlusta á hv. þingmann áðan, og líka í andsvörum hans, að fyrir nokkuð mörgum árum kom fram á Alþingi frumvarp um starfsemi fasteignasala, og gott ef það var ekki samþykkt. Ég talaði við kunningja minn sem var fasteignasali og spurði hann út í þetta frumvarp og hann varð æfur. Hann sagði við mig: Þetta frumvarp er samið af fólki sem hefur aldrei keypt fasteign, aldrei selt fasteign, ætlar sér aldrei að kaupa fasteign eða selja fasteign. Hann sagði: Við samningu þessa frumvarps var einfaldlega ekki talað við nokkurn mann sem hafði vit á málefninu. Án þess að ég ætli að halda því fram að þeir sem sömdu þessa tillögu viti ekki hvað þeir eru að gera dettur mér í hug að spyrja: Var einhvern tímann talað við einhvern fulltrúa lögreglunnar um núverandi ástand, á meðan menn voru að hugsa þetta mál og semja þessa tillögu, þ.e. hvernig það horfir við lögreglumönnum, stjórnendum í lögreglunni, hvernig núverandi kerfi virka? Var einhvern tímann talað við einhvern úr þeim hópi sem þessari tillögu er beint að, ekki gegn heldur að? Í tillögunni er sagt, með leyfi forseta:

„Þá verði við undirbúning frumvarpsins metið hvort stofnunin geti einnig farið með ákæruvald í slíkum eftirlitsmálum.“

Stofnunin á að rannsaka málin en hún á líka að ákæra í þeim. Það er ekki góð latína í mínum huga en allt í lagi og ég spyr: Sjá menn þetta svona fyrir sér? Á hún kannski að kveða upp dóma líka? Það væri náttúrlega fullkomið. Þá hefðum við bara einn rannsóknarrétt hér. Síðan finnst mér tillagan ruglingsleg, hún er bæði til þess að beina út á við, þ.e. til að taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum, en hún á líka að sinna kynferðislegri áreitni innan lögregluliðsins. Hún á að vinna bæði inn og út. Ég veit ekki betur en að reglur séu til og séu í gildi, það eru náttúrlega til verklagsreglur sem segja nákvæmlega til um það hvernig eigi að handtaka fólk og hvernig eigi að meðhöndla það í járnum. Það eru til verklagsreglur, sem voru meira að segja gerðar opinberar á Alþingi, af þáverandi dómsmálaráðherra, um valdbeitingu með skotvopnum. Nákvæmlega var upplýst um reglur ríkislögreglustjórans, hvernig þetta ætti að gerast. Þetta liggur fyrir.

Ef lögreglan brýtur á borgurum úti í samfélaginu af ýmsum ástæðum hafa þeir einstaklingar leið til að koma sínum málum á framfæri. Við höfum dæmi um að lögreglumenn hafi verið færðir til í starfi, jafnvel sagt upp störfum eða að bundinn hafi verið endi á skipun þeirra. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvers vegna þessi tillaga kom fram.

Eitthvert fólk á skemmtunum, jafnvel úti á landi — ég man eftir einu tilviki og ég verð þá bara leiðréttur ef það er rangt þegar gerð var dálítið af líkamsleitum á útihátíð vestur á landi sem var kvartað mikið yfir. Afskipti voru höfð af nokkrum tugum manna en vegna þeirrar líkamsleitar sem þá fór fram fannst þó nokkuð af ætluðum fíkniefnum. Ég man líka eftir öðru tilfelli á nýlegri útihátíð fyrir nokkrum árum þar sem lögreglumaður með fíkniefnaleitarhund fór um svæði þar sem gestir voru. Fíkniefnahundurinn „merkti tjöld“ sem gengið var fram hjá. Það var leitað í tjöldunum og undantekningarlaust fundust fíkniefni. Spurningin er: Er þetta áreitni af hálfu lögreglu?

Á þessari útihátíð komu upp nokkrir tugir fíkniefnamála sem voru sem sagt brot, bæði var um að ræða neyslu- og söluskammta ef ég man rétt. Mér finnst að tillagan sé sett fram til að tortryggja lögregluna. Kannski er það bara ég sem er svona brothættur en ekki tillagan. Ég held samt að öllum sem vinna lögreglustörf sé ljóst hversu erfið þau eru. Lögreglumaðurinn þarf að taka ákvörðun á nánast engum tíma um hvað hann ætlar að gera. Ætlar hann að biðja um líkamsleit eða segja að hún standi fyrir dyrum? Ætlar hann að framkvæma handtöku? Hann þarf að taka ákvörðun á mjög stuttum tíma. Hann hefur bara þessa einu ákvörðun að taka, hvort hún er rétt eða röng kemur svo í ljós síðar. Auðvitað gaumgæfa menn mjög vel hvernig farið er fram.

Mér hefur hins vegar dottið eitt í hug, og ekki bara dottið í hug, ég held að það liggi fyrir að málum hefur fjölgað undanfarið þar sem kvartað hefur verið yfir handtökum sem hugsanlega eru vegna þess að lögreglumenn eru nú fáliðaðri í útköllum en áður var. Það er t.d. gjörsamlega óþolandi hversu fáir lögreglumenn eru á höfuðborgarsvæðinu. Það vantar fjöldann allan af þeim. Í útköll sem fimm menn fóru í áður fara kannski tveir núna. Þetta hefur þau áhrif að það verða meiri átök milli lögreglu og borgara en áður var og það er vegna þess að meintur brotamaður hugsaði sig tvisvar sinnum um áður en hann hjólaði í fimm lögreglumenn en hann hugsar sig ekki eins lengi um í dag að berjast við tvo. Hvort handtakan er svo réttmæt eða óréttmæt kemur í ljós síðar.

Ég veit ekki hvort fjöldi handtaka var gaumgæfður við samningu þessarar tillögu, hvort menn gerðu einhverja úttekt á öllum framkvæmdum handtökum lögreglu á landinu og skoðuðu hversu margar hefðu verið kærðar eða bornar brigður á. Það væri eitt vegna þess að við höfum apparöt hér á Íslandi sem gæta borgaranna gegn valdbeitingu. Þó að það sé ekki alveg að bera saman epli og epli höfum við eftirlitsstofnun hér, eða eigum að hafa, sem á að fara yfir það hvernig lánastofnanir koma fram við fólk sem er í kröggum og þó að í sögunum þar sé ekki líkamlegt ofbeldi eru þær ekki allar fagrar eins og við vitum. Auðvitað höfum við þennan mekanisma, afsakið, forseti. Ég gæti spurt hvort menn sem sömdu þessa tillögu hafi líka farið yfir það hversu mörg tilvik hafa komið í ljós þar sem lögregla hefur farið offari að mati þess sem rannsakaði, þar sem handtaka hefur verið ólögmæt. Við vitum að mönnum sem hafa setið í gæsluvarðhaldi eða verið handteknir ólöglega hafa verið dæmdar bætur, að því er talið er. Aðferðirnar eru til sem og viðurlögin þannig að það er kannski óþarfi setja upp sérstaka stofnun.

Hvers vegna ekki að nota umboðsmann Alþingis? Það var fundið að því hér áðan, ef ég tók rétt eftir hjá framsögumanni, að í nefnd um starfsemi lögreglunnar væru fyrrverandi lögreglumenn. Ef ég ætti eitthvað sökótt við t.d. blaðamenn eða fasteignasala myndi ég gjarnan vilja að í siðanefndum þeirra væru blaðamenn eða fasteignasalar, einhverjir sem vita um hvað málið snýst. Ég veit ekki af hverju aðrir en lögreglumenn eða þeir sem hafa lágmarksþekkingu á lögreglustörfum, lögmenn eða einhverjir slíkir, ættu að sitja í svona nefnd sem er í gangi í dag. Ég get ekki betur séð en að tillagan sé sett fram til að tortryggja lögregluna, sem mér finnst vont, en hugsanlega útskýrir framsögumaður fyrir mér í andsvari að svo sé alls ekki.