150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[18:03]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og gefur að skilja erum við hv. þingmaður alls ekki sammála um mjög margt hérna. Ég ætla að byrja á því sem ég er sammála um sem er það sem hv. þingmaður sagði um fámenni lögreglunnar. Það er til þess fallið að auka líkur á því að fólk beiti lögreglu einhvers konar ofbeldi. Ég hef margoft nefnt það í ræðum mínum og þetta er höfuðástæða þess að við verðum að fjármagna lögregluna nógu vel til að mönnun sé fullnægjandi og þetta gerist ekki. Þetta er eitt af stóru atriðunum í því að fyrirbyggja að lögreglan þurfi að beita valdi og hvað þá að hún telji sig þurfa að beita meira valdi en ástæða er til. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála þar og getum sameinast í slagnum þar.

Nú endist mér sennilega ekki tíminn til að fara yfir allt sem við vorum ósammála um en ég ætla að reyna að forgangsraða aðeins.

Hv. þingmaður spurði hvort við gerð þessarar tillögu hefði verið talað við talsmenn eða fulltrúa lögreglunnar. Svarið er já. Ég get ekki nefnt nöfn vegna þess að ég veit ekki hvort þeir einstaklingar kæri sig um að vera nafngreindir. Svarið er samt já, útfærslan kemur frá einstaklingum sem þekkja mjög vel til, hafa langa og ítarlega reynslu af lögreglustörfum hér sem annars staðar. Hv. þingmaður spyr hvort þessi stofnun eigi að kveða upp dóma. Svarið er nei. Spurningin um ákæruvaldið er ekki augljós en flutningsmenn langaði til að komast hjá tvíverknaði þannig að þessi stofnun væri ekki að rannsaka eitthvað og svo loksins þegar komið væri eitthvert mál þyrfti að fara með það í gegnum annað ferli. Vel má vera að það sé ekki við hæfi að hafa ákæruvaldið þarna, það er skilið eftir handa forsætisnefnd að kanna það eins og kemur fram í tillögutextanum.

Hv. þingmaður nefnir þá skynjun sýna að tillagan sé sett fram til að tortryggja lögregluna. Ég tek hv. þingmann trúanlegan þegar hann segist ekki vera móðgaður fyrir hönd lögreglunnar. En það er nákvæmlega sú orðræða og þessi viðbrögð sem ég á við þegar ég tala um að menn séu móðgaðir yfir svona tillögu. Það er vegna þess að það er tilhneiging til þess að láta alltaf eins og lögreglan sé sjálfkrafa góði gæinn og að lögreglan beiti sér alltaf af ýtrustu hófsemd. Það birtist m.a. í orðræðu hv. þingmanns. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega ekki raunveruleikanum samkvæmt, þetta er fólk og það er brigðult eins og við hin. Þetta er valdastofnun og það er sjálfsagt að hafa eftirlit með henni.