150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[18:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig hástöfum og mikið að við hv. þingmaður skulum vera sammála um að það þurfi að fjármagna lögregluna betur en nú er gert. Ég treysti á að við fáum þá stuðning hans því að Miðflokkurinn mun vissulega, eins og áður, leggja fram tillögur um að fjármagna lögregluna betur en gert er. Ég treysti á að þá fáum við stuðning hv. þingmanns og jafnvel félaga hans líka. Það gleður mig líka að tillögusmiðir hafi verið í sambandi við menn sem þekkja til í lögreglunni. Það gleður mig mikið. Það breytir samt ekki því að mér þykir þetta sett fram með þeim hætti sem ég lýsti áðan. Það er engin móðgun í því, það er bara raunsæi. Ég segi aftur: Var leitað upplýsinga um það hversu mörg tilvik þetta eru af gerðum handtökum? Þá gætum við borið þetta saman við aðrar starfsgreinar þar sem mistök eru dýrkeypt. Við gætum gert það ef við ættum tölulegar upplýsingar um það.

Tvíverknaður ef dómstóllinn er annars staðar? Já, því miður. Það er þannig líka að ef brotið er á okkur og við þurfum að fara í yfirheyrslu hjá lögreglu fórum við í biðröð hjá dómstólum, því miður. Það er tvíverknaður og hefur sárgrætilega komið fram í kynferðisbrotamálum, því miður. Málshraði þar er ómögulegur og búinn að vera í mörg ár og hefur hinar alvarlegustu afleiðingar. Það er tvíverknaður í því að hafa rannsóknarskylduna og ákæruna sér en við þetta búum við og í alvarlegri málum en þessu. Ég tel að það sé ekki til þess fallið að bæta úr. En auðvitað er gagnsemi þessarar tillögu sú að við tökum upp umræðu um störf lögreglunnar sem er mjög mikilvægt að við tökum.

Ég held að ég komist ekki lengra að sinni en vonandi svarar hv. þingmaður því sem ég spurði áðan.