150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um tvíverknaðinn, hann varðaði ákæruvald, ekki dómstóla. Ekkert dómsvald fylgir þessari tillögu, ég vil halda því alveg til haga. Ákæruvaldið er ekki dómsvald og það að sæta ákæru er ekki dómur andstætt því sem almenn orðræða bendir stundum til. Ég er vonandi ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn en það er bara mikilvægt að þetta sé á hreinu. Þetta er tvennt ólíkt.

Tölfræði um handtökur. Svarið er aftur: Já, það var tekið tillit til þess við uppfærslu tillögunnar. Sú tölfræði var ekki til þegar tillagan var upphaflega skrifuð. Síðan kom nefnd um eftirlit með lögreglu sem t.d. hafði það hlutverk að taka saman ýmsa tölfræði um þetta og hún er í skýrslu nefndar um eftirlit með störfum lögreglu sem finnst á nel.is. Þar koma t.d. fram 44 kvartanir um framkomu starfsmanna lögreglu, það var stærsti flokkur kvartana. Það voru 42 kvartanir um handtöku og var það næststærsti flokkurinn. Af þeim 42 voru 12 mál þar sem tilkynning barst frá héraðssaksóknara og svo er farið meira út í alla þessa tölfræði. Já, hún liggur fyrir og eftir skoðun á þessum skýrslum var það enn afstaða okkar í Pírötum að það ætti að vera sjálfstætt eftirlit með þessum málum.

Það kemur einnig fram í skýrslunni að þriðji stærsti flokkurinn, þetta er fyrir 2018, varðar ætluð brot gegn þagnarskyldu og meðferð upplýsinga, þau voru samtals 16, og á árinu 2018 vísaði nefndin tveimur málum sem féllu í þennan flokk til saksóknara. Það þýðir að 14 mál fóru ekki til saksóknara og er nokkuð sem við eigum samt að hafa virkt eftirlit með. Nefndin er greinilega að fylgjast með því og býr til tölfræði og vísar málum áfram hér og þar en hefur ekki rannsóknarheimildir og hefur ekki viðurlagaheimildir sem hún ætti að mínu mati að hafa. Það þarf ekki að vera miklu stærri eða umfangsmeiri stofnun en mér finnst hún þurfa að hafa rannsóknarheimildir. Mér finnst hún þurfa að vera sjálfstæðari og mér finnst að hún eigi að hafa leið til að bregðast við þessu án þess að þurfa að stóla á viðbrögð annarra stofnana.