150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[18:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Mér er kunnugt um að lögreglan hefur komið sér upp búnaði, m.a. myndavélum sem lögreglumenn bera á sér, sem hægt er að nota sem gögn þegar um er að ræða handtökur. Ég man þá tíð þegar ég vann með lögreglunni að þá var í einhverjum tilfellum haft uppi um að borgararnir voru með ágreining um hvernig tiltekin atriði hefðu farið fram. Sá vettvangur var myndavélarvæddur og kærurnar hurfu nánast. Þar var allt tekið upp. Samskipti lögreglunnar og borgarans voru tekin upp á mynd. Það voru öryggismyndavélarmerki við vettvanginn og þetta hvarf. Þessi eftirlitsaukning verður örugglega til góða fyrir báða aðila og auðvitað eigum við að nota tæknina til að skera úr um svona mál.

Ég bið hv. þingmann að taka ekki orð mín þannig að ég telji lögregluna hafna yfir gagnrýni eða lög og rétt, alls ekki, og að borgararnir hafi ekki rétt gagnvart lögreglu, alls ekki. Eins og ég sagði einhvern tímann í máli mínu er lögreglan fyrst og fremst til að gæta hagsmuna okkar borgaranna og veita okkur öryggi. Einn ágætur maður spurði mig fyrir nokkrum árum: Hvað varð um lögregluþjóninn? Nú heita menn lögreglumenn. Ég er alveg sammála honum um það, ég er mjög til í að taka aftur upp starfsheitið lögregluþjónn vegna þess að hann er til að þjóna okkur borgurunum, ekki satt?

Það er líka það sem lögreglan er að gera sólarhringinn út allt árið um kring. Þó að ég sé ósammála þessari tillögu fagna ég því að hún sé komin fram af því að við tökum umræðu um þessi mál. Ég sit í forsætisnefnd og mun taka henni fagnandi þegar hún kemur þangað inn og taka vel á henni.