150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

grunnskólar.

16. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Börnin okkar geta verið alls konar og þá þurfum við líka að byggja upp kerfi, skólakerfi og heilbrigðiskerfi, sem geta sinnt þörfum barna sem eru alls konar. Það er margt gott gert í íslensku skólakerfi í dag en það er líka eitt og annað sem er ósköp einfalt að laga. Þetta frumvarp gengur út á að undirstrika frelsi foreldra barna til að velja þann skóla og það kerfi sem hentar barni þeirra best. Við þingmenn Viðreisnar og hv. þingmaður Pírata Helgi Hrafn Gunnarsson lögðum frumvarpið fram á síðasta löggjafarþingi en málið hlaut ekki afgreiðslu. Við leggjum til breytingar á lögum um grunnskóla um lögbundin fjárframlög úr sveitarsjóði með það að markmiði að jafna stöðu foreldra, óháð efnahag. Það er náttúrlega lykillinn að þessu, að þegar foreldrum býðst valfrelsi sé það raunverulegt valfrelsi en ekki bundið efnahag, að valfrelsið gildi líka fyrir fólk sem er með lægri tekjur og í erfiðum aðstæðum. Þetta þarf að tryggja og það er hugsunin á bak við þetta frumvarp.

Í gildandi lögum er framkvæmdin varðandi framlögin sú að sjálfstætt rekinn grunnskóli gerir þjónustusamning á grundvelli laganna og á þá rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi þar sem skólinn starfar. Samkvæmt ákvæðinu skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum á landinu á hvern nemanda samkvæmt útreikningi frá Hagstofu Íslands. Í lokamálslið ákvæðisins fer hlutfallið niður í 70% þegar nemendur eru orðnir 200 eða fleiri.

Að mati okkar flutningsmanna er gildandi ákvæði 43. gr. b síst til þess fallið að létta greiðslubyrði foreldra og stuðla þannig að því að val þeirra á skólum fyrir börn grundvallist fyrst og fremst á faglegum forsendum en ekki kostnaði. Að sama skapi hafa slíkar takmarkanir að okkar mati hamlandi áhrif á framþróun annarra skólastofnana en þeirra sem eingöngu og alfarið eru reknar af sveitarfélögum. Við teljum mikilvægt — og það er m.a. það sem skýrslur frá OECD og fleiri erlendum greiningaraðilum sýna — að við þurfum að gera allt til þess að ýta undir nýsköpun, þróun og endurgjöf innan skólastarfsins. Það gildir auðvitað bæði um opinbert rekna skóla sem sjálfstætt rekna. Það er gríðarlega mikilvægt að sjálfstætt starfandi skólar hafi líka möguleika og svigrúm til að fara í skólaþróun og ýmsa aðra framþróun sem er mikilvæg fyrir nemendur þeirra. Óumdeilt er að þeim mun lægri sem framlög eru með hverjum nemanda, því meiri kostnaður fellur á foreldra. Þar af leiðandi getur sá kostnaður orðið nokkuð mikill áhrifaþáttur við val foreldra á skóla, meiri en aðrir þættir sem slíkt val ætti með réttu að grundvallast á. Við undirstrikum að val foreldra verði fyrst og fremst að grundvallast á því hvað henti barninu hverju sinni en ekki möguleikum foreldra til að velja á grunni fjárhags.

Hærri framlög með nemendum eru einnig í samræmi við þá skoðun okkar að fé fylgi nemanda óháð eignarhaldi viðkomandi skóla. Við teljum að skólakerfið, líkt og heilbrigðiskerfið, sé í rauninni í grunninn opinbert rekið en það er hins vegar mismunandi eftir því hvort einkaaðilar geta komið að opinberri þjónustu eða eingöngu opinberar stofnanir. Það sjáum við t.d. í heilbrigðisgeiranum. Þó að einkareknar stofnanir eigi undir högg að sækja undir forystu núverandi ríkisstjórnar er það engu að síður mikilvægur þáttur að við viðurkennum að til þess að tryggja ákveðna grunnþjónustu, bæði í mennta- og heilbrigðiskerfinu, þurfum við að fá alla til þess að vinna að því að byggja upp gott og öflugt heilbrigðis- og menntakerfi. Það þýðir ekki að menn útiloki sjálfkrafa sjálfstætt starfandi aðila á grunni þess að þeir eru ekki starfandi hjá hinu opinbera. Framlögin komi frá hinu opinbera og við höfum skýrt skilgreind markmið og tryggjum jafnt aðgengi fyrir alla. Út á það gengur þetta frumvarp. Við viljum tryggja jafnt aðgengi og valfrelsi fyrir alla í skólakerfinu.

Það er skoðun okkar flutningsmanna að núverandi 75% lágmark feli í sér ákveðna mismunun gagnvart foreldrum sem velja sjálfstætt rekna skóla fyrir börn sín, enda munu þeir greiða umtalsverð skólagjöld, ólíkt þeim foreldrum sem senda börn sín í opinbera grunnskóla. Að sjálfsögðu spilar margt inn í, eins og hefur verið í áraraðir, allt frá því að Ásdís Halla Bragadóttir var bæjarstjóri í Garðabæ og Garðabær tók þá ákvörðun að láta framlögin fylgja algerlega til sjálfstætt starfandi skóla eins og Hjallastefnunnar í Garðabæ og fyrir vikið ákvað Hjallastefnan að taka ekki skólagjöld, allt gert til þess að reyna að tryggja jafnræði. Því fer fjarri að við viljum reyna að koma í veg fyrir að sveitarfélögin móti sína stefnu en grunnforsendan verður samt alltaf að vera sú að við erum að móta kerfið fyrir börnin okkar sem hafa mismunandi þarfir. Jón getur plumað sig í þessu umhverfi meðan Gunna getur það ekki. Þá verðum við að geta haft ákveðna fjölbreytni í kerfinu sem sinnir bæði Jóni og Gunnu á þeirra forsendum og þá verðum við að ýta undir fjölbreytni í skólakerfinu. Það gerum við með því að tryggja gott utanumhald utan um skóla sem reknir eru af hinu opinbera sem og sjálfstætt starfandi skóla.

Við viljum benda á að bæði í innlendri löggjöf sem og alþjóðasamningum er kveðið á um rétt barna til náms og frelsi foreldra til að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum. Má í því samhengi m.a. vísa til 2. mgr. 3. gr. grunnskólalaga sem kveður á um skyldu foreldra til að gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri sem og ábyrgð foreldra samkvæmt 19. gr. laganna á námi barna sinna. Skylda þessi í grunnskólalögum er samofin foreldraskyldum og forsjá barns eins og þær skyldur eru settar fram í barnalögum frá árinu 2003. Í 28. gr. barnalaga er kveðið á um inntak forsjár en í 2. mgr. ákvæðisins segir að foreldrum beri að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Þá segir í einnig að foreldrum beri að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Einnig beri foreldrum að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál. Þetta er ósköp einfalt. Þá ber í þessu samhengi einnig að vekja athygli á 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Í 3. mgr. sama ákvæðis segir að tryggja skuli börnum í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Auðvitað treystum við foreldrum barnanna í samvinnu og samráði við börnin sjálf til að velja hvað hentar börnunum best og þá verðum við að tryggja jafnræði, að tryggja valfrelsi. Út á það, enn og aftur, gengur þetta frumvarp.

Af alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og varða réttindi barna og menntun má m.a. nefna viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Í þessu samhengi er rétt að ítreka sérstaklega ákvæði 3. mgr. 13. gr. síðastnefnds samnings þar sem segir:

„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, þegar við á, lögráðamanna til þess að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum, sem hafa sambærileg lágmarksmenntunarskilyrði og þau sem sett eru eða samþykkt kunna að vera af ríkinu og að ábyrgjast trúarlega og siðferðilega menntun barna þeirra í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.“

Af framangreindu má því ráða að íslenska ríkinu beri skylda til að víkja til hliðar þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir frelsi foreldra er viðkemur vali þeirra á menntun og fræðslu sem þeim finnst við hæfi með þarfir barnsins að leiðarljósi, algerlega óháð rekstrarformi skóla, efnahag eða öðrum atvikum. Núverandi lagaumhverfi er ekki til þess fallið að stuðla að slíku frjálsu vali óháð efnahag og öðrum atvikum á meðan mikill greinarmunur er gerður á framlagi eftir rekstrarformi grunnskóla, þ.e. eftir því hvort um er að ræða sjálfstætt rekinn grunnskóla eða opinberan.

Þess vegna leggjum við til að hlutfallstala laganna verði hækkuð og lágmarksframlag sveitarfélags til einkarekinna grunnskóla hækki úr 75% í 90% í 200 barna skóla eða færri og fari úr 70% í 85% að vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar grunnskóla í landinu ef skólinn er með 200 börn eða fleiri. Auðvitað er þarna líka höfð hliðsjón af stjórnarskrárvörðum rétti sveitarfélaga til að ráða málefnum sínum sjálf. Ég man það alveg, ég var menntamálaráðherra þegar þessi ákvæði komu og þau voru nýmæli í lögum, að tryggja tilverurétt sjálfstætt starfandi skóla. Við tókumst á, og ekkert óeðlilegt við það, við Samband íslenskra sveitarfélaga sem taldi frumvarpið á sínum tíma ganga gegn stjórnarskrárvörðum rétti sveitarfélaga til að ráða sínum málefnum. Við höfðum fyrst og fremst að leiðarljósi að tryggja valfrelsið en líka að reyna að hlusta á þessi sjónarmið. Við sjáum núna ákveðna þróun. Nú hefur þetta ákvæði verið í 12 eða 13 ár í lögum og reynslan af því er góð. Sjálfstætt reknir skólar standa styrkari fótum í samfélaginu en áður. Engu að síður er ákveðin óvissa í þeirra rekstri líka. Ekki síst er ákveðin óvissa hjá foreldrum þegar þeir velja skóla fyrir börnin sín því að enn getur fjárhagur foreldra ráðið því hvaða skóla þeir velja. Við heyrum að það gerist. Það vil ég ekki sjá í íslensku samfélagi. Við þurfum að tryggja jöfn tækifæri fyrir alla, hvar sem þeir standa í samfélaginu. Við verðum að hafa í huga að um er að ræða lögbundin framlög sveitarfélaga með börnum, eins og ég gat um áðan, sem hafa lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi og þeim ber skylda til að bjóða upp á námsúrræði fyrir. Þar af leiðandi er um að ræða börn sem sveitarfélögum ber að tryggja skólavist og standa straum af kostnaði við hana. Þannig að við segjum: Með þessu erum við enn frekar að styrkja og ýta undir fjölbreytni í skólakerfinu með því að styðja starfsemi sjálfstætt starfandi skóla á Íslandi og tryggja að sanngjörn framlög fylgi barni alveg óháð vali foreldranna og hvar það ber niður. Ég tel þetta vera skynsamlegt skref. Þetta er mikilvægt skref til að treysta grundvöll sjálfstætt starfandi skóla. Það er gríðarlega mikilvægt.

Ég tel líka að sjálfstætt starfandi skólar hafi innan þeirra sveitarfélaga þar sem þeir starfa haft jákvæð áhrif á framþróun hjá öðrum skólum í viðkomandi sveitarfélagi. Ég held að það sé skemmtileg dýnamík sem þannig kemst inn í íslenskt menntakerfi og íslenskt skólakerfi. Við verðum að halda áfram að treysta grundvöllinn, viðurkenna sjálfstætt starfandi skóla. Við þurfum að tryggja fyrst og fremst að valfrelsið sé foreldranna, fyrir börnin okkar, eins og ég gat um áðan, sem eru alls konar og hafa alls konar þarfir. Þau eru mismunandi og við þurfum þess vegna að tryggja réttinn alls staðar í samfélaginu fyrir börnin okkar þannig að þau geti notið sín innan skólakerfisins á sínum eigin forsendum, ekki á forsendum kerfisins.