150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

grunnskólar.

16. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar spurningar og vil geta þess að t.d. Reykjavík hefur einmitt gert svolítinn skurk í þessu eftir að nýr meiri hluti myndaðist og tekið sérstaklega utan um sjálfstætt starfandi skóla, bæði leikskóla og grunnskóla. Hún hefur endurnýjað ákveðna þjónustusamninga við þá og reynt að koma til móts við foreldra sem eru með börn í slíkum skólum, hvort sem er á leik- eða grunnskólastigi. Það er afar mikilvægt. Sveitarfélög gera þetta á mismunandi hátt. Ég gat um áðan að Garðabær tók þá ákvörðun á sínum tíma að láta full framlög fylgja barni. Þetta er ekki viðbótarkostnaðar fyrir sveitarfélögin. Það er alltaf kostnaður við hvert barn þannig að þetta er ekki viðbótarkostnaður sem slíkur fyrir sveitarfélögin heldur er í rauninni verið að láta fjármagnið fylgja barninu. Mosfellsbær hefur líka staðið sig vel og reynt að ýta undir valfrelsi — af því að ég sé hér þingmann sem kemur úr Mosfellsbæ og hefur staðið sig með prýði í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Það eru misjafnar áherslur. Því er ekkert að leyna að mér fannst Reykjavíkurborg framan að vera svolítið treg gagnvart sjálfstætt starfandi skólum. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið tabú en borgin var svolítið treg við að koma til móts við sjálfstætt starfandi skóla en það er sem betur fer að breytast og ég ætla bara að leyfa mér að þakka meiri hlutanum í borginni það, m.a. Pawel Bartoszek, að hafa fylgt því eftir.

Framlögin munu með þessu hækka. Það sem hefur alltaf verið, bara frá því að við settum þetta inn í lögin á sínum tíma, er hvert miðgildið sé og við hvað eigi að miða. Það er alltaf umræða þegar kemur að fjármagni hjá hinu opinbera við hvað eigi að miða. Það þarf að finna sanngjarnt viðmið (Forseti hringir.) sem beinist fyrst og fremst að því að við tryggjum börnunum það val sem hentar þeim. Ég treysti sveitarfélögunum sem og ríkisvaldinu til að klára málið með þeim hætti.