150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

33. mál
[18:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka mínum góða þingflokksbróður og framsögumanni frumvarpsins fyrir framsöguna. Ég verð nú að segja að ég er einstaklega stolt af því að loksins skulum við mæla fyrir frumvarpi sem við höfum stefnt að frá því að við komum inn á Alþingi Íslendinga. Ég hef ítrekað staðið í þessu ræðupúlti og lýst hugmyndum okkar um að hver og einn sé bærastur til að meta sína eigin starfsgetu, umfram bírókrata úti í bæ sem eigi að setja okkur öryrkja í starfsgetumat eftir dúk og disk, en það hefur nú verið við frekar dræmar undirtektir, verð ég að segja. Ef þið sæjuð það, ágætu landsmenn, sem eruð að horfa á okkur hér og nú í þessum ágæta ræðustól, er ekki nokkur einasta sála í þingsal nema hæstv. forseti og starfsmaður þingfundaskrifstofu. Ég held því að þessi málaflokkur sem hefur verið hjartans mál Flokks fólksins hljóti ekki neina sérstaklega athygli (Gripið fram í.)almennt — nema hvað hér kemur hv. þm. Vilhjálmur Árnason og bara þýtur inn í salinn. Vertu velkominn.

Staðreyndin er sú að það sem við erum að leggja til er ekkert nýtt af nálinni. Við erum ekki að finna upp hjólið heldur líta til annarra landa. Við erum að líta í kringum okkur og sjá hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig annars staðar. Í Svíþjóð kom t.d. glögglega í ljós að 32% þeirra einstaklinga sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið. Nú hefur verið mikið ákall, sérstaklega hjá hæstv. fjármálaráðherra sem fórnar höndum yfir því hversu mikið öryrkjum fjölgar og hvernig í veröldinni fara eigi að því að fækka þeim. Ég hef gjarnan sagt að það séu nú kannski ýmis önnur ráð til en að fleygja okkur fyrir björg — og þetta er eitt af þeim, úrræðið sem við tölum fyrir hér og nú þar sem einstaklingurinn sjálfur fær tækifæri til að meta sjálfan sig til þeirrar vinnugetu sem hann hugsanlega hefur. Það teljum við vera í anda alls annars sem við gjarnan boðum, frelsis, að reyna að styrkja einstaklinginn og ná fram því besta sem hugsast getur.

Þegar hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefnir að frítekjumark öryrkja sé 109.000 kr. skulum við átta okkur á því að um leið og við förum að vinna, þrátt fyrir frítekjumarkið, er sérstaka framfærsluuppbótin bara farin. Maður bara borgar hana til baka. Ef maður byrjar að vinna í september og fær 100.000 kr. fram að jólum, fer eitthvað umfram, þó að það séu ekki nema 100.000 kr., þarf maður að borga framfærsluuppbótina til baka allt árið. Punktur og basta. Og þetta er nákvæmlega sú reynsla sem ég hef upplifað sjálf. Þetta kerfi sem við búum við í dag er skúmaskotakerfi sem hvetur alla sem mögulega geta reynt að afla sér tekna til að koma sér út úr fátæktargildrunni til að vinna svarta vinnu. Er það það sem við viljum, virðulegi forseti? Er það virkilega það hvatakerfi sem við sýknt og heilagt sendum skilaboð um út í samfélagið? Væri ekki nær að taka utan um þennan þjóðfélagshóp, þá sem mögulega geta unnið? Við tölum mikið um nýgengi örorku en í þeim hópi eru margir ungir karlmenn á aldrinum 18–25 ára gamlir, sérstaklega þeir, sem er virkilega sorglegt. Í mjög mörgum tilfellum eru þessir einstaklingar líkamlega vel á sig komnir en eiga erfitt andlega. Margir hverjir eru að koma úr neyslu og reyna að ná sér upp úr erfiðleikum sem þeir hafa gengið í gegnum og gengur bara ekki allt of vel að fóta sig úti í samfélaginu. Einstaklingar sem leggjast í þunglyndi og vanlíðan og eiga mjög erfitt því að það er sannað mál að því lengur sem við erum frá því að taka þátt í samfélaginu, því líklegra er að við lokumst af til lengri tíma, hvort heldur sem það er eftir slys sem við erum lengi að ná okkur af — og því lengri tími sem líður, því erfiðara verður fyrir einstaklinginn að koma sér aftur út í samfélagið. Það er bara staðreynd. Ég er ekkert að koma með nein ný vísindi.

Það er athyglinnar virði að við erum búin að mæla fyrir öðru frumvarpi, eða réttara sagt eru ríkisstjórnin og hæstv. félagsmála- og barnamálaráðherra með það mál núna, þar sem við vorum ítrekað búin að benda á að þótt hætt yrði að skerða aldraða vegna launatekna myndi ríkissjóður alveg örugglega ekki tapa. Allir útreikningar sem við höfðum frá sérfræðingum bentu til þess að ríkissjóður myndi frekar hagnast. Það væri lýðheilsumál að eldri borgarar gætu mögulega fengið að vinna lengur. Nákvæmlega það sama á við um öryrkja. Hugsið ykkur hvað það væri frábært ef við, Alþingi Íslendinga, gætum hvatt þennan þjóðfélagshóp til dáða, komið fólkinu okkar út í vinnu, a.m.k. þeim sem eru bærir til þess og hafa líkamlega burði til þess. Við getum hjálpað þeim út í lífið aftur og um leið værum við að fækka öryrkjum í orðsins fyllstu merkingu.

Ég átta mig ekki á þessari þrákelkni. Ég átta mig ekki á því af hverju kerfið er svona ofboðslega þungt í vöfum. En um leið get ég ekki annað en bent á að heyrst hefur úti í samfélaginu þegar þessi mál ber á góma: Ætlið þið virkilega að gera það að verkum að öryrkinn fari að græða á því að fara að vinna og fái líka framfærslu Tryggingastofnunar? Það er eiginlega þyngra en tárum taki ef fólk sýnir svona neikvæðni og heldur virkilega að við boðum fulla vinnu öryrkjans og fulla framfærslu hjá Tryggingastofnun. Það er alrangt og ég hvet alla þá sem yfir höfuð hafa einhvern áhuga á því að setja sig inn í málin að lesa þetta frumvarp, lesa greinargerðina og skoða það sem við höfum fram að færa — en fyrst og síðast að hlusta á það sem við erum að segja því að við erum að segja satt. Ég er verulega stolt af því að við séum þó búin að mæla fyrir frumvarpinu. Ég hvet ykkur hins vegar sérstaklega til að fylgjast með hvernig því verður tekið, hvernig almennt verður tekið utan um þau fimm forgangsmál sem Flokkur fólksins mun mæla fyrir núna hverju á fætur öðru, og bera það síðan saman við þau stóru orð sem oft hafa verið höfð í frammi í kosningabaráttunni um hvernig allt eigi að laga, allt skuli bæta, öllu breyta og allir ætli að gera allt fyrir alla. Hér erum við að berjast fyrir þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu, þá sem eru með lægstu launin, þá sem varla draga fram lífið dag frá degi. Við erum að tala um þann hóp hér og nú.

Ég ítreka að ég er afskaplega ánægð með að við skulum vera búin að mæla fyrir málinu. Flokkur fólksins segir það sem hann meinar og meinar það sem hann segir: Allt það sem við höfum boðað munum við koma fram með, alveg sama hvernig aðrir taka því og hvort þeir hjálpa okkur að koma því í gegn eða ekki. Venjulega erum við tilbúin að setja öll okkar mál í hendurnar á ríkisstjórninni og gefa henni kost á því að útfæra þau og hrinda þeim í framkvæmd þannig að þegar upp er staðið væri það ekki bara Flokkur fólksins heldur við öll, eins og ég hef gjarnan sagt, sem tækjum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum; við öll sem sýndum þjóðinni og sönnuðum fyrir henni að við gætum unnið saman að góðum málum, staðið saman í gegnum þykkt og þunnt og verið saman þegar það skiptir virkilega máli. Og þannig held ég — eða ekki held, þannig í raun finnst mér það vera í hjarta mínu — að Alþingi Íslendinga eigi að vinna, þó að upp komi alls konar pólitískt hártog og eitt og annað, og er það náttúrlega eðli málsins samkvæmt akkúrat eins og það á að vera, þó að við hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson séum kannski ekki alveg orðin nógu flink í því enn þá. En við lærum hratt enda höfum við gengið í gegnum ýmislegt misskemmtilegt og stundum svolítið bratt. En við erum bjartsýn og brosandi og nú er hv. velferðarnefnd komin með þetta frábæra mál í fangið. Þar er mikið af góðu fólki sem ég vona að sé tilbúið til þess að rýna djúpt í rökin sem fylgja því, horfa til frænda okkar í Svíþjóð og sjá hvort við séum nokkuð í bullinu. Við erum að segja satt og það sem er eiginlega það besta við málið, eins og kom fram í framsögu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar rétt áðan, er að ef þessir einstaklingar geta fengið vinnu og treysta sér til að vinna munu þeir greiða staðgreiðslu af sínum launum.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé kannski ekkert frekar um þetta að segja nema bara að þetta er mál nr. tvö sem Flokkur fólksins mælir fyrir af fimm mála forgangsmálapakkanum okkar sem við köllum velferðarpakka Flokks fólksins. Og svo bara þakka ég fyrir í bili — er það ekki, Guðmundur?