150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

gagnkrafa ríkislögmanns i Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[15:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál heyrir ekki undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að ná sátt í þessu máli og öll framganga ríkisstjórnarinnar hefur verið með þeim hætti að setja á laggirnar sáttanefnd, viðurkenna hið augljósa, þ.e. hversu mikið ranglæti var framið gagnvart fólki fyrir rúmum 30 til 40 árum. Þá var málið því miður tekið upp á Alþingi á mjög óheppilegan hátt. Ég vona að við séum ekki að fara þangað aftur, hv. þingmaður.

Málið er í því ferli sem við erum með í okkar skipan. Ríkislögmaður fer með málið. Ég get svarað neitandi öllum þeim spurningum sem hv. þingmaður bar upp, hvort málið hafi verið tekið sérstaklega fyrir í ríkisstjórn eða við farið yfir það hvernig ríkislögmaður vinnur, það er ekki venja í þeim málum. Það er einfaldlega vinna sem þar er unnin. Ég get líka sagt það hér í þessum ræðustól að ef hægt væri að leysa þetta mál með einhverjum öðrum hætti myndi ég svo gjarnan vilja taka þátt í því.