150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

borgarlína og veggjöld.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig honum hefur tekist að tengja tannlæknakostnað við vegtolla. En allt í lagi, sjálfsagt er allt hægt. En í sambandi við markaðar tekjur var það svo hér áður, þar til við settum ný lög um opinber fjármál, að markaðar tekjur fóru akkúrat í gatnakerfið okkar þannig að það fjármagn sem bifreiðaeigendur voru sannarlega að greiða fór nákvæmlega í það. Þegar við erum að tala um hátt í 80 milljarða kr. þyrftum við kannski ekki að vera að setja á þessa vegtolla og þá spyr ég aftur: Er það rangt? Fyrst að þetta er allt saman gripið úr lausu lofti hjá mér og hæstv. ráðherra lætur í það skína að ég sé bara að grípa eitthvað upp af götunni, eitthvað sem kemur fram í fjölmiðlum, spyr ég: Hvað á hæstv. ráðherra nákvæmlega við? Fer ég bara vill vegar um að hér eigi að fara að leggja á vegskatta? Er ég bara í bullinu?