150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

fríverslunarsamningar við Bandaríkin.

[15:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og leiðréttinguna um Belti og braut. (Gripið fram í.) Rétt skal vera rétt. Í þessu máli er einmitt mjög mikilvægt að við höldum vel á hagsmunum okkar og auðvitað er líka mikilvægt að við eigum trausta bandamenn sem deila með okkur bæði hagsmunum en ekki síður sýn á þau mikilvægu mál sem þarna eru gjarnan ekki rædd, sem eru einmitt loftslagsmálin, þau gríðarlegu umhverfisáhrif sem eru að verða vegna þessarar þróunar. Það er auðvitað fagnaðarefni að hlusta t.d. á hæstv. forsætisráðherra í heimsókn varaforseta Bandaríkjanna ræða þau málefni sérstaklega. Ég tók einungis eftir því í fréttaflutningi að það voru ólíkar áherslur hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum, en auðvitað er mjög mikilvægt að í hagsmunum okkar í þeim efnum sé mjög vel haldið utan um loftslagsmálin og umhverfismálin því að af þeim stafar okkur ekki síður mikil ógn. Auðvitað óttast maður áhugaleysi þeirra ríkja sem þarna eiga í hlut á þeim þætti málsins.

Þróunin á norðurslóðum er ekki bara tækifæri í skilningi (Forseti hringir.) nýrra siglingaleiða, heldur ekki síður gríðarleg umhverfisógn fyrir okkur.