150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

starfsemi smálánafyrirtækja.

14. mál
[18:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Nirði Sigurðssyni fyrir framsöguna og tek fram að ég styð þetta mál. Ég hef sjálf fjallað töluvert mikið um smálánin í þessum þingsal og reyndar víðar, átt sérstaka umræðu og ýmislegt. Mér finnst þetta böl sem við þurfum að reyna að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum. Þetta mál er kannski einn þáttur þess. Ég veit að hæstv. ráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er með mál sem lýtur að neytendalögum og kemur m.a. inn á smálánin sérstaklega. Það er eitt fyrsta mál hennar á dagskrá.

En ég hef haft áhyggjur af því að við þurfum að breyta fleiru, m.a. innheimtulögum, og hyggst bregðast við því með því að leggja fram mál hvað þau varðar. Allt frá því að starfsemi svokallaðra smálánafyrirtækja hófst hér á landi, í kringum 2010, hafa lánveitingar þeirra af og til orðið okkur tilefni umræðna hér og víðar annars staðar. Lánaskilmálar smálánafyrirtækja eru af mörgum talin óforskammað dæmi um okur og ýmislegt í starfsháttum þeirra þykir bera vott um rangsleitni og jafnvel pretti, eins og þegar farið var í kringum lögin með því að dylja ofurháar vaxtaálögur með málamyndakaupum á rafbók eins og hefur verið rætt. Það er líka mál margra að smálánum sé einkum beint að samfélagshópum sem búa við slakan efnahag og ungu fólki í neyslu, fólki sem á erfitt uppdráttar. Upplýsingar frá embætti umboðsmanns skuldara staðfesta þetta og sýna svo ekki verður um villst að það er einkum ungt fólk, tekjulágt fólk og fólk í fíknivanda sem tekur smálánin, ratar í greiðsluvanda vegna þeirra og neyðist til að leita til embættisins til að leysa úr vandkvæðum sínum. Starfsemin sem slík felst í því að lána fé til skamms tíma með gríðarháum vöxtum. Þannig geta nafnvextir á ársgrundvelli numið hundruðum prósentna eins og við höfum heyrt fréttaflutning af. Samkvæmt gildandi lögum er slík vaxtataka ólögleg en það er farið í kringum þau eins og svo oft áður með því að kalla vextina lántökukostnað og ýmsum öðrum yfirdrepsskap er beitt til að hækka endurgjaldið fyrir lánveitinguna umfram það sem heimilt er.

Smálánafyrirtækin eru ekkert annað en hluti af víðtækum breytingum sem við sjáum á fjármálamarkaði, m.a. með tilkomu snjalltækjanna, stafrænna lausna — hin nýja fjármálatækni, t.d. FinTech, þróast hratt og í sumum tilfellum, eins og við höfum áþreifanlega orðið vör við, hraðar en löggjöfin sem um hana gildir. Ég dreg þá ályktun að sú sé einmitt raunin hér á landi, að löggjafinn hafi í gegnum tíðina ekki náð nægilega vel utan um þær breytingar sem orðið hafa á þessu sviði. Eitt af því sem ég hef orðað mjög oft er að þó að stærsti pósturinn hjá umboðsmanni skuldara sé, eða hafi a.m.k. verið á tímabili, smálánin og fólk í vanda þeirra vegna fjármagna smálánafyrirtækin ekki starfsemi umboðsmanns skuldara. Önnur fjármálafyrirtæki og lánastofnanir, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, bera straum af kostnaði við þetta embætti en ekki smálánafyrirtækin. Það hlýtur að vera óeðlilegt ef maður er að lána á annað borð. Þess vegna tek ég undir að smálánafyrirtækin lúti öllum þeim lögmálum ef við viljum hafa þau í okkar samfélagi. Ég vil það ekki og hef lýst því eindregið. Ég vil gera allt sem við getum til að loka á þau. En að öðrum kosti tek ég undir að við verðum að setja þeim mjög þröngan ramma.

Neytendasamtökin hafa verið gríðarlega dugleg og haldið úti beinskeyttri gagnrýni á smálánafyrirtækin vegna viðskiptahátta þeirra. Ég man að árið 2016 lagði Neytendastofa sektir á þrjú smálánafyrirtæki vegna óleyfilegs lántökukostnaðar og Neytendastofa lagði líka 10 millj. kr. stjórnvaldssekt á smálánafyrirtækið E-content, auk dagsekta, því að fyrirtækið sinnti ekki tilmælum um að breyta starfsháttum. Þessar ákvarðanir fengu staðfestingu hjá áfrýjunarnefnd neytendamála þannig að það liggur fyrir að við erum með viðurkennt vandamál í fanginu. Lántakendur sem hafa greitt allt of háa vexti og jafnvel himinhá vaxtagjöld vegna ólögmætra lána hafa rosalega lítil færi á að fá endurgreiðslu á þessum vöxtum. Það kostar málaferli ef fólk ætlar að reyna að eiga við þetta og það er ekki þetta fólk sem getur staðið í slíkum málaferlum.

Eitt af því sem þarf að gera er að ráðuneytin sameinist öll — eða þau sem koma að þessu. Það er ekki bara eitthvað eitt að mínu mati, það er fleira í löggjöfinni sem þarf að breyta, sem þarf að takast á við. Þess vegna dreifist þetta á mörg ráðuneyti. Í skýrslunni sem var skilað um smálánafyrirtæki var m.a. vísað til Finnlands og þar er verið að vinna frumvarp um neytendalán þar sem m.a. er verið að tala um að neytendum sé ekki skylt að greiða vexti eða annan kostnað af lánum umfram árlega hlutfallstölu kostnaðar eða lögbundið hámark. Undir það hljótum við að vilja taka en því miður hefur ekki dugað okkur að setja þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar því að okkur gengur illa að stoppa þetta ef það er alltaf einhvern veginn hægt að fara í kringum hlutina. Við þurfum líka að reyna að koma í veg fyrir að það skapist réttaróvissa eins og við heyrðum um í umfjöllun fyrir ekki svo löngu, að ef lántaki neitar að greiða skapist ekki réttaróvissa varðandi ólöglega hlutann. Ég tek undir það, eins og ég sagði áðan, að ef niðurstaðan er sú að við viljum ekki loka á þessi fyrirtæki verði þau bæði leyfis- og skráningarskyld. Það er líka mikilvægt að við vitum hverjir standa að baki þessum fyrirtækjum, að gegnsæi ríki í eignarhaldinu. Það hefur komið fram, og það er m.a. ástæðan fyrir því þetta þrífst, að smálánafyrirtækin fengu í lið með sér innheimtufyrirtæki sem er tilbúið til að innheimta þessi lán. Það er í eigu eins lögmanns og þar er stór brotalöm í kerfinu. Fjármálaeftirlitið hefur ekki eftirlit með lögmönnum heldur hafa þeir eftirlit með sjálfum sér, þ.e. Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með lögmönnum. Það er eiginlega ekki hægt að segja að það sé raunhæft að þegar fyrirtæki gerast brotleg sé Lögmannafélag Íslands í stakk búið til að takast á við það. Það getur ekkert gert. Það getur ávítt en það getur ekki ákært eða neitt slíkt. Þetta er mikil brotalöm sem verður að taka á. Neytendasamtökin reyndu að sækja mál fyrir hönd nokkurra lánþega gagnvart innheimtufyrirtækinu sem lögmaðurinn stýrir en var í raun vísað frá af því að þau eru ekki aðilar máls. Þar kemur lagatæknin inn. Það er auðvitað ótækt að hagsmunasamtök sem slík geti ekki komið fram fyrir hönd einhvers og borið fram kvörtun eða fengið mál tekin til umfjöllunar.

Mér finnst líka mikilvægt að ef fólk tekur slík lán geti það á hverjum tíma fengið upplýsingar um sundurliðun á láninu, hver vaxtakostnaðurinn sé og lántökukostnaðurinn og annar kostnaður, svo að það liggi alltaf fyrir ef maður óskar þess. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er fólk í mismunandi standi þegar það tekur svona lán og því ekkert óeðlilegt við það. En það sem ég setti kannski fram í upphafi var varðandi innheimtulögin sérstaklega, og ég hyggst leggja fram mál hvað þau varðar. Það er ekkert þak á löginnheimtu og kostnaðurinn getur verið gríðarlega mikill eins og við höfum heyrt. Vanskilakostnaðurinn er í veldisvexti sem enginn ræður við.

Það er líka óþægilegt og dapurlegt að þeir sem veita smálánin halda fólki beinlínis í spennitreyju og þessum aðstæðum með því að hóta fólki því að setja það á vanskilaskrá. Það vill auðvitað enginn fara á vanskilaskrá með tilheyrandi afleiðingum sem við þekkjum. Fólk sem kemur í bankann og ætlar að fá lán, hvort sem það er fyrir húsnæði eða öðru, þarf ekki að gefa upp smálánin. Það getur verið með 3, 4 eða 5 milljónir í smálánum á bakinu og allt í klessu. Það kemur inn í bankann og þarf ekki að gefa það upp ef það er að taka lán. Það er líka mjög bagalegt vegna þess að tilkynningarskyldan og utanumhaldið er ekki það sama. Það er einn af stóru þáttunum. Fólk heldur þá áfram í vítahring í staðinn fyrir að fá aðstoð við að greiða lánin upp og byrja svo á núllpunkti.

Ég held að eini aðilinn sem eiginlega hafi alheimsupplýsingar um okkur Íslendinga sé Creditinfo. Menn tala um að Facebook hafi miklar upplýsingar um Íslendinga og alla heimsins aðila en Creditinfo hefur gríðarlegar upplýsingar um landsmenn. Það fyrirtæki hefur m.a. þessar upplýsingar og mér finnst ástæða til að við skoðum hvort við þurfum að setja reglur þar að lútandi af því að þetta hangir allt svolítið saman. Þeir skrá kannski helst vanskilaskrá. Mér finnst þetta umhugsunarvert. Svo er hitt varðandi bankastarfsemina. Það virðist einhvern veginn vera þannig að maður hakar í box þegar maður sækir um á netinu undir alls konar kringumstæðum, um miðja nótt og alla vega, eins og kemur einmitt fram í þessu frumvarpi; fólk bara hakar við og þá er það allt í einu komið með eilífa skuldfærslu þangað til lánið er búið og bankinn segist ekkert geta gert við því. Það er líka eitthvað sem á ekki að vera svona einfalt. Við vitum alveg að það er alls konar „I agree“ þegar maður á að samþykkja eitthvað í restina og það kemur langur bálkur af skilmálum. Ég gæti fullyrt, án þess að hafa hugmynd um það, að 95%, svo ég verði ekki grófari, lesi ekki skilmála, alls konar skilmála, hvort sem það er á samfélagsmiðlum, þegar maður er að samþykkja eitthvað, eða þegar maður er að taka lán í umhverfi eins og þessu. Þess vegna þurfum við að skoða ábyrgð þeirra aðila sem koma að þessum málum, allra aðila, ekki bara einhvers eins.

Það vísar hver á annan. Ég er sammála því sem Neytendasamtökin hafa lagt til, að komið verði upp keðjuábyrgð í innheimtu. Ég held að það sé mikilvægt og til þess fallið að ábyrgðin verði víðtækari, að innheimtuaðilar, greiðslumiðlunarþjónusta, fjármálastofnanir, allir vísi ekki hver á annan heldur sé þetta samábyrgð allra. Markaðssetningin er svo ágeng. SMS-ið kemur bara, það er Secret Solstice eða jólin eða hvað það nú er sem er fram undan. Þá er eitthvað sem ýtir á. Það er einhver viðburður og manni er boðið að taka smálán — reddaðu þér. Það er mjög margt sem ég gæti haldið áfram að tala um og sem við þurfum að takast á við. Ég vil líka að það sé einn staður þar sem fólk getur leitað lausna, að ekki sé alltaf verið að vísa fólki frá einum stað til annars til þess að vita hver staðan er. Ég held að það sé afar mikilvægt í þessu öllu saman.

Virðulegi forseti. Nú er tíminn búinn. Það eru ekki til neinar almennilegar tölfræðilegar upplýsingar um umfang málanna en það er eitt af því sem við þurfum að búa til.