150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[19:29]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna á þessari áhugaverðu tillögu. Mig langar að nefna einn vinkil á rafrænni stjórnsýslu og þessa mögulegu nýju stofnun sem stundum gleymist í umræðunni, þegar við tölum um gagnakerfi hins opinbera og rafræna stjórnsýslu yfir höfuð, og var t.d. ekki að finna í greinargerð með tillögunni, en það er varðveisla gagna stjórnsýslunnar, sem sagt endapunkturinn á þessu. Það er afar mikilvægt að hugað sé að varðveislunni strax í upphafi svo að auðvelt og einfalt sé að taka rafræn gögn til varðveislu samkvæmt þeim reglum sem um það gilda á hverjum tíma. Sem dæmi var fyrir rúmum áratug gert tilraunaverkefni á vegum Þjóðskjalasafns Íslands með tveimur ríkisstofnunum til að taka til varðveislu rafræn gögn úr tveimur gagnakerfum hjá þeim stofnunum. Það var afar áhugavert lærdómsferli fyrir Þjóðskjalasafn og stofnanirnar. Í öðru tilfellinu þurfti t.d. að laga uppbyggingu gagnakerfisins svo að unnt væri að taka gögnin til varðveislu. Þetta var gagnakerfi sem stofnunin sjálf hafði búið til og líklega sett lítið fé í. Ég held að svona sé staðan hjá mjög mörgum aðilum ríkisins.

Maður sér fyrir sér að stofnun sem samhæfir og samræmir verkferla og uppbyggingu gagnavera ríkisins geti einmitt komið þessum málum í betri farveg. Það má nefna t.d. að Þjóðskjalasafnið hefur einungis fengið tilkynningar um 12–18% af öllum gagnakerfum ríkisins, samkvæmt eftirlitskönnun safnsins. Þar segir að það séu u.þ.b. 1.000–1.500 gagnakerfi í notkun hjá ríkinu. Slíkar tilkynningar eru nauðsynlegar fyrir safnið til þess að ákvarða hvaða upplýsingar á að taka til langtímavarðveislu.

Eins og hv. þingmanni er væntanlega kunnugt um er rekið rekstrarfélag Stjórnarráðsins innan þess sem hefur með að gera hugbúnað og gagnakerfi og rekstur slíkra kerfa innan Stjórnarráðs Íslands. Maður veltir fyrir sér hvort verkefni mögulegrar nýrrar stofnunar, tæknistjóra ríkisins, og rekstrarfélagsins skarist á einhvern hátt eða rekist á. Eða sér hv. þingmaður fyrir sér að verkefni rekstrarfélagsins verði útvíkkuð í nýja stofnun?