150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[19:37]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru réttar athugasemdir hjá hv. þingmanni. Tákn skjalasafna er rómverski guðinn Janus. Hann er með tvö andlit, annað horfir til fortíðar, hitt til framtíðar. Það er það sem skjalasöfn og skjalaverðir eru allan daginn að hugsa um, hvernig við varðveitum fortíðina en hugum líka að framtíðinni. Til þess að varðveita framtíðina þurfum við að taka rafræn gögn til varðveislu. Það er í raun og veru útilokuð varðveisluaðferð að ætla að taka rafræn gögn og varðveita þau á pappír til lengri tíma því að þá töpum við gífurlega miklum upplýsingum. Þar sem ég er starfsmaður Þjóðskjalasafnsins veit ég að við höfum miklar áhyggjur af stöðu ríkisins í þessum efnum og varðveislu rafrænna gagna og ég fagna því ef slíku embætti verður komið á fót, það geti mögulega komið þessum málum í betri farveg þannig að við tryggjum varðveislu gagna í framtíðinni. Það er ekki eingöngu sagan sem við verðum að varðveita heldur líka réttindi og hagur stjórnsýslunnar. Það er gífurlega mikilvægt að hafa það líka í huga.