150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[15:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Frumvarp þetta var lagt fyrir Alþingi síðasta vor en komst ekki á dagskrá. Það er nú lagt fram nánast óbreytt.

Aðdragandi þess er vitaskuld vel kunnur. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016 greiddi meiri hluti breskra kjósenda atkvæði með því að Bretland gengi úr Evrópusambandinu. Í kjölfarið tilkynntu bresk stjórnvöld, hinn 29. mars 2017, um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Bresk stjórnvöld og Evrópusambandið hófu í kjölfarið samningaviðræður um hvernig standa skyldi að útgöngunni og þeim viðræðum lauk með gerð svonefnds útgöngusamnings í nóvember á síðasta ári. Sá samningur hefur hins vegar reynst umdeildur í Bretlandi. Hefur samningurinn ítrekað verið borinn undir atkvæði í neðri deild breska þingsins en ekki hlotið brautargengi. Bretland hefði að óbreyttu átt að ganga úr Evrópusambandinu 29. mars 2019 en bresk stjórnvöld hafa tvívegis óskað eftir að fresta útgöngu til að leitast við að ná stuðningi meiri hluta breska þingsins við útgöngusamninginn. Í apríl sl. ákváðu leiðtogar Evrópusambandsins að fresta útgöngu Bretlands til 31. október nk. og afstaða ríkisstjórnar Bretlands er að ganga úr Evrópusambandinu þann dag. Ekki er hins vegar hægt að útiloka frekari frestun útgöngu fram yfir 31. október eins og mál hafa nú þróast. Þess vegna er mikilvægt að íslensk stjórnvöld séu áfram reiðubúin að bregðast við mismunandi sviðsmyndum og er þetta frumvarp mikilvægur liður í þeirri vinnu.

Virðulegi forseti. Það var ljóst strax frá því að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni lá fyrir sumarið 2016 að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu myndi hafa talsverð áhrif hér á landi. Í krafti aðildar sinnar að Evrópusambandinu er Bretland aðili að EES-samningnum og öðrum þeim samningum sem Ísland hefur gert við ESB. Þegar þeirri aðild lýkur taka þessir samningar ekki lengur til Bretlands.

Bretland er ein af okkar helstu viðskiptaþjóðum, nágrannaríki okkar og náið okkur á fjölmörgum sviðum. Af þeim sökum hefur það verið forgangsatriði íslenskra stjórnvalda að tryggja áframhaldandi náin tengsl og góð viðskiptakjör við Bretland eftir útgöngu Breta úr ESB. Þetta markmið er m.a. endurspeglað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem áréttað var mikilvægi þess að gæta vel að hagsmunum Íslands við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun vitaskuld marka þáttaskil og kalla á að Ísland og Bretland skilgreini framtíðarsamskipti sín í samningum sín á milli. Áður en viðræður um framtíðarsamskipti við Bretland geta hafist er þó fyrsta skrefið að ganga frá útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

Þunginn í starfi stjórnvalda síðustu misserin hefur því beinst að því að búa í haginn fyrir útgöngu Bretlands með það að leiðarljósi að tryggja að mikilvægir hagsmunir Íslands, íslenskra ríkisborgara og íslenskra fyrirtækja fari ekki forgörðum þegar Bretland verður ekki lengur aðildarríki að ESB. Til grundvallar þessu starfi liggur ítarleg greiningarvinna sem unnin hefur verið í samstarfi við öll ráðuneytin í Stjórnarráðinu, auk reglulegs samráðs við utanríkismálanefnd. Jafnframt hefur átt sér stað ítarlegt samráð við hagsmunaaðila í viðskiptalífinu, á vinnumarkaði og víðar sem miðað hefur að því að greina nánar þá víðtæku hagsmuni sem felast í samskiptum okkar við Bretland. Sú langvarandi óvissa sem ríkt hefur um hvenær og hvernig útganga Bretlands úr Evrópusambandinu kemur til framkvæmda hefur óneitanlega sett mark sitt á þann undirbúning. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að vera undir það búin að mæta útgöngu Bretlands, hvort sem hún verður á grundvelli svonefnds útgöngusamnings Bretlands og ESB eða án samnings.

Af þessum sökum höfum við í samfloti við Noreg og Liechtenstein gert tvo samninga við Bretland. Í fyrsta lagi var í byrjun desember lögð lokahönd á gerð samnings sem endurspeglar þau atriði útgöngusamnings Bretlands og ESB sem varðar okkur með beinum hætti. Sá samningur hefur ekki enn verið undirritaður enda er enn óvíst hver örlög útgöngusamnings Bretlands og ESB verða. Samningur okkar við Bretland tryggir að við munum sitja við sama borð og aðildarríki Evrópusambandsins komi til þess að útgöngusamningurinn verði að endingu samþykktur.

Í öðru lagi var undirritaður 2. apríl sl. samningur sem ætlað er að tryggja réttindi ríkisborgara Íslands, Noregs og Liechtensteins sem búsettir eru í Bretlandi og þeirra Breta sem búsettir eru í þessum löndum komi til þess að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings. Til viðbótar þessum tveimur samningum var einnig undirritaður 2. apríl sl. samningur Íslands og Noregs við Bretland sem tryggi sömu tollakjör og nú gilda komi til útgöngu án samnings.

Rétt er að undirstrika að með þessum þremur samningum er eingöngu verið að mæla fyrir um nauðsynlegar ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands. Til að tryggja brýnustu hagsmuni í þeim efnum stendur hæst að tryggja annars vegar réttindi borgaranna til áframhaldandi búsetu og atvinnu og hins vegar mikilvægi þess að tollakjör haldist óbreytt um sinn. Í þessum ráðstöfunum felst því aðeins að verið er að brúa bilið frá því að Bretland yfirgefur Evrópusambandið og þar til náðst hefur samningur um framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands, en Bretar munu eingöngu hefja formlegar samningaviðræður við ESB og önnur ríki um framtíðarsamband eftir útgöngu.

Virðulegur forseti. Lengi hefur legið ljóst fyrir að útganga Bretlands úr ESB og EES myndi kalla á lagabreytingar hér á landi og hófst vinna í utanríkisráðuneytinu við undirbúning þess frumvarps strax sl. haust. Undirbúningur og smíði þessa lagafrumvarps hefur farið fram undir mjög óvenjulegum aðstæðum þar sem óvissa um á hvaða forsendum Bretland mun að endingu ganga úr Evrópusambandinu hefur skapað margvísleg ófyrirséð álitaefni. Þetta frumvarp var lagt fram í nánast óbreyttum búningi sl. vor en var ekki rætt þá. Þegar frumvarpið var lagt fram var óvissa um hvort Bretland gengi úr Evrópusambandinu á grundvelli samnings eða án samnings og nú, þegar frumvarpið er lagt fram öðru sinni, ríkir sama óvissa um þetta atriði. Af þeim sökum tekur frumvarpið sem fyrr til beggja framangreindra sviðsmynda, þ.e. bæði til þess að útgangan verði á grundvelli fyrirliggjandi útgöngusamnings eða að Bretland gangi úr ESB án samnings.

Meginefni þessa frumvarps er því sem hér segir: Í fyrsta lagi mælir frumvarpið fyrir um heimild Alþingis til að staðfesta annars vegar samning Íslands, Noregs og Liechtensteins við Bretland vegna útgöngu á grundvelli samnings og hins vegar samning framangreindra ríkja vegna réttinda borgaranna komi til útgöngu án samnings. Ljóst er að aðeins annar þessara samninga mun taka gildi þar sem þeim er ætlað að taka til tveggja ólíkra sviðsmynda. Það er hins vegar mikilvægt að heimild liggi fyrir að staðfesta hvorn samninginn fyrir sig þegar í ljós kemur hvorum þeirra verði í raun beitt.

Í öðru lagi er með frumvarpinu mælt fyrir um stöðu Bretlands hér á landi á meðan á svonefndu aðlögunartímabili stendur. Rétt er að undirstrika að til aðlögunartímabilsins kemur aðeins ef útganga Bretlands verður á grundvelli samnings. Í aðlögunartímabilinu felst að Bretland heldur áfram að hafa stöðu aðildarríkis Evrópusambandsins fram til ársloka 2020 þó að aðild þess hafi verið formlega lokið og Bretar hafi ekki lengur seturétt innan stofnana ESB. Rétt er að undirstrika að samningar Bretlands og Evrópusambandsins í tengslum við útgöngu munu aðeins gilda á milli Bretlands og ESB og munu ekki binda önnur ríki. Hins vegar má gera ráð fyrir að komi til þessa munu ESB og Bretar óska eftir því við önnur ríki að þau haldi áfram að veita Bretlandi sömu stöðu og aðildarríki ESB njóta á grundvelli þeirra samninga sem í gildi eru á milli ESB og viðkomandi ríkja. Af hálfu Íslands er vitaskuld sjálfsagt mál að veita Bretlandi þessa stöðu enda munu íslenskir aðilar njóta sömu réttinda í Bretlandi á meðan á slíku aðlögunartímabili stæði. Hins vegar kallar slíkt á að sett sé ákvæði um það í lög og því er mælt fyrir um slíkt ákvæði í frumvarpinu.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu mælt fyrir um breytingar á lögum um útlendinga, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um lögheimili vegna framkvæmda áðurnefndra samninga hér á landi. Þessar lagabreytingar miða að því að tryggja breskum ríkisborgurum sem búsettir eru hér á landi þau réttindi sem þeim eru tryggð með áðurnefndum samningum og mæla nánar fyrir um það fyrirkomulag sem þessir samningar mæla fyrir um, svo sem skráningu og útgáfu skilríkja.

Í fjórða og síðasta lagi er í frumvarpinu mælt fyrir um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti en þeim breytingum er ætlað að viðhalda tilteknum undanþágum frá ákvæðum þeirra laga komi til þess að Bretland gangi úr ESB án samnings.

Þá er með lögunum heimiluð tiltekin undanþága frá lögum um fjármálafyrirtæki komi til útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.

Virðulegur forseti. Eins og ég gat um áðan áforma bresk stjórnvöld að ganga úr Evrópusambandinu 31. október nk. Með þessu frumvarpi er búið svo um hnútana að við erum tilbúin að mæta útgöngunni og tryggja okkar mikilvægustu hagsmuni, hvort sem Bretland gengur út úr Evrópusambandinu á grundvelli samnings þess við Evrópusambandið eða án samnings. Jafnframt er það mat utanríkisráðuneytisins sem byggir á nánu samráði við bresk stjórnvöld að enda þótt Bretland og ESB myndu semja um ákveðnar breytingar á útgöngusamningnum hefði það ekki áhrif á þá samninga sem liggja fyrir á milli Íslands, Liechtensteins og Noregs annars vegar og Bretlands hins vegar. Það er því ekki ástæða til að bíða eftir niðurstöðum viðræðna Bretlands og ESB.

Það er afar mikilvægt að þetta frumvarp fái brautargengi og verði samþykkt tímanlega, sérstaklega í ljósi þess að það skýrist líklega ekki fyrr en mjög skömmu fyrir settan útgöngudag á hvaða forsendum útganga Bretlands úr ESB verður og hvort hún verður 31. október nk. eða síðar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar og 2. umr.