150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[15:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð og ágætisræðu. Ég vildi þó leiðrétta ákveðinn misskilning sem kom fram hjá hv. þingmanni. Bretar mega ekki gera og við erum ekki að gera framtíðarsamning fyrr en þeir eru farnir út úr Evrópusambandinu. Þeir hafa ekki viðskiptafrelsi. Ef þjóð gengur í Evrópusambandið afsalar hún sér því. Ég er enn þá mjög vongóður um að við náum góðum samningi við Breta og hef lagt mikið upp úr því. Það stendur alveg áfram að í því felast tækifæri. Við getum sest niður með Bretum og gert framtíðarsamning. Það hefur ekkert breyst. Ég tala ekki fyrir hönd Borisar Johnsons eða annarra stjórnmálamanna, þeir verða að tala fyrir sína hönd, þó svo að um sé að ræða meint ættartengsl við konu mína en látum það liggja á milli hluta. Það er nú grín.

Varðandi það hverju Íslendingar tapi á þessu: Þegar þær útleggingar eru lagðar upp er ekki gert ráð fyrir þessum samningum. Við erum að koma með samninga og gera ráðstafanir, annars vegar ef þeir fara út með samningi sem hefur ekki náðst í gegn og hins vegar án samnings. Við höfum tryggt helstu hagsmuni okkar. En við lögðum náttúrlega alltaf upp með að þetta væri forgangsmál vegna þess að svo miklir hagsmunir eru í húfi, eins og hv. þingmaður vísaði réttilega til. Síðan geta menn haft skoðanir á innanlandspólitík Bretlands. Hins vegar hefur stefna breskra stjórnvalda ekki verið að reisa múra heldur hafa Bretar þvert á móti lagt mikla áherslu á að fara í meiri fríverslun en þeir hafa í gegnum Evrópusambandið á viðskiptastöðum Evrópusambandsins. Ég held að alveg óhætt sé að fullyrða að ástæðan fyrir því að svokallaður May-samningur hefur ekki farið í gegn sé sú að ekki var tryggt að þeir gætu gert hann án þess að Evrópusambandið væri búið að samþykkja hann.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um allt sem hann segir um (Forseti hringir.) mikilvægi þess að við náum góðum framtíðarsamningi og við munum leggja okkur fram um það í góðri samvinnu, m.a. við hv. utanríkismálanefnd.