150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru dagar hinna óvæntu atburða í þingsal hvað mig varðar. Síðast þegar ég var hérna var mér líkt við dömu og nú er ég alveg eins og Boris Johnson. Ég veit ekki hvort ég þori að hlusta á fleiri ræður, en ég tek þessu ekki illa.

Hins vegar getum við rætt þetta almennt. Ég held að það sé góð samstaða í breskum stjórnmálum og íslenskum þegar kemur að loftslagsmálum og ég hef ekki heyrt annan tón hvað þau varðar. Án þess að ég ætli að fara að tjá mig um einstaka hluti í breskum stjórnmálum vona ég að það sé góð samstaða um það sem þeir hafa verið að leggja upp með um aukna fríverslun í heiminum. Það var t.d. ein helsta gagnrýnin á Evrópusambandið í Brexit-kosningunni að þar hefði ekki verið höfð forganga um fríverslun. Bretar hafa m.a., sem betur fer og ég vona að flestar þjóðir verði þar áfram, lagt áherslu á að styrkja og efla alþjóðaviðskiptakerfið og Alþjóðaviðskiptastofnun. Ég held að það sé að koma svolítið í bakið á okkur að hafa ekki sinnt því, sérstaklega þær þjóðir sem þar ættu að vera í forystu. Við eigum einhvern hlut að máli því að okkar rödd skiptir máli og er mikilvæg. Ég hef áhyggjur af því að það eru blikur á lofti varðandi alþjóðaviðskipti í heiminum. Einangrunarhyggja er orðin miklu meira áberandi en verið hefur. Menn hafa reynt, ekki í áratugi heldur árhundruð, að fara þá leið að byggja tollmúra og einangra sig í von um að það skili einhverju fyrir efnahag viðkomandi landa. Það hefur aldrei gengið upp og mun aldrei ganga upp. En hvað sem mönnum finnst um einstaka stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka í Bretlandi vona ég alla vega (Forseti hringir.) að við séum sammála um að sá tónn um aukin alþjóðaviðskipti og opnun markaða sé eitthvað sem okkur líki.