150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og þetta blasir við mér hafa Bretar nálgast þetta mál á sama hátt og maðurinn sem ætlar að ganga að runnanum og hirða aðeins bestu berin en það er búið að setja honum það fyrir að eiga runnann með öllum öðrum í hverfinu. Mér finnst afar langsótt að kenna Evrópusambandinu fyrst og fremst um þau vandræði sem nú eru uppi þar sem fyrir liggur að fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands hefur komið heim í hús með samning sem þráfaldlega hefur verið felldur á breska þinginu. Núverandi forsætisráðherra Bretlands hefur beinlínis rekið þingið heim, sem var að vísu dæmt ólöglegt. Það er ekki von að þeim farnist vel í þessum samningaviðræðum þegar þau virðast ekki hafa hugmynd um það sjálf hvernig þau vilja haga málum, tollfrelsi, ekki tollfrelsi; landamæri, ekki landamæri. Mér finnst blasa við að þau hafi verið í berjatínslu og ætli aðeins að tína aðalbláberin. En svoleiðis gengur það aldrei í lífinu. Maður fær fullan poka, sumt gott, annað súrt, það verður bara að hafa það. Auðvitað vonar maður í lengstu lög að allt blessist. Ég segi það aftur að ég vona innilega að eitthvað mjög óvænt gerist sem geri það að verkum að við fáum aðra atkvæðagreiðslu. En þetta veldur mér miklum vonbrigðum af því að ég batt töluverðar vonir við að hv. þingmaður væri með lausn á írsku landamærunum sem enginn annar hefði fundið.