150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum ekkert útiloka það, ef maður myndi einbeita sér að því, [Hlátur í þingsal.] að slíkt gæti gerst. En ég myndi ekki ábyrgjast niðurstöðuna. Þó að við séum ósammála um marga hluti held ég að óhætt sé að segja að það er rétt hjá hv. þingmanni að Bretar komu vitanlega mjög tættir til þessara viðræðna. Það er heldur ekki alveg sanngjarnt að halda því fram, þó að sumu leyti sé það rétt, að þeir gætu tekið það besta en ekki hitt. En ég bakka ekkert með það að ég held að þeir hafi mætt ofboðslegri mótstöðu og til þeirra verið gerðar miklar kröfur, t.d. varðandi landamærin, sem er vitað að er gríðarlega viðkvæmt mál. Þó svo að ég hafi ekki fundið lausnina þá vitum við alveg að það er lykilmál fyrir báða aðila, þ.e. bæði Íra og Breta, að þetta leysist farsællega. Ég kannast alveg við það að þegar utanríkismálanefnd fór í heimsókn til Bretlands þá ræddum við einmitt þetta mál og það var svolítið mikið þannig að öxlum væri bara yppt yfir því hvernig þetta væri. En á sama tíma hafa Bretar væntanlega lagt fram ákveðnar hugmyndir að því sem Evrópusambandið og líklega Írar hafa ekki verið ánægðir með. Það hefur verið reynt að benda á aðrar leiðir þó að við höfum ekki getað leyst það á þinginu á Íslandi. En mér finnst allt þetta ferli undirstrika það sem ég sagði í lokin á ræðu minni, að menn þurfi að hugsa sig mjög vel um þegar þeir ganga í Evrópusambandið sem við gerum vonandi aldrei. Mér finnst mjög erfitt að segja við fólk í dag að við getum alltaf hætt af því að menn geta ekki svo auðveldlega hætt.