150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að varpa einni lítilli spurningu fram. Ég geri ekkert endilega ráð fyrir að þurfa að fara aftur í andsvar en við sjáum til. Mér finnst reyndar merkilegt í upphafi hvað hæstv. utanríkisráðherra er ofboðslega áfram um að fólk og þjóðir virði þjóðaratkvæðagreiðslur og minni á þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá sem á enn eftir að efna. En vandamálið með þessa tilteknu þjóðaratkvæðagreiðslu var auðvitað að verið var að greiða atkvæði um núverandi ástand eða einhverja óvissu sem var meira að segja teiknuð upp á svo falskan hátt, með svo miklum ósannindum eins og sýnt hefur verið fram á, að maður verður hugsi. Þegar maður speglar það líka við muninn sem var á afstöðu ungra og eldri kjósenda verður það eiginlega enn óhuggulegra.

Ég er orðinn býsna leiður á því að við ræðum aldrei samskipti við aðrar þjóðir nema bara um fríverslun og viðskipti. Auðvitað þurfum við að eiga samskipti á sviði menningar og lista og ýmissa annarra hluta, en þau skipta máli. Ég held hins vegar að við eigum ekkert að vera að telja það sem brjálæðislega mikinn kost að við séum svo lítil að það sé enginn hræddur við okkur vegna þess að svoleiðis eiga samskipti ekkert að ganga. Ég vona að þau gangi ekki út á ofbeldi hins stóra í garð þess litla. Ég skil hæstv. utanríkisráðherra þannig að hann telji okkur það lítil að það sé lítil hætta á því að hann fara að „presentera“ hér eitthvert íslenskt belti og braut. Við gerum okkur grein fyrir hvar við erum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að lokum: Það er alveg rétt að Evrópusambandið veltir væntanlega fyrir sér einhverjum fordæmum þegar það gerir þennan samning við Bretland og sanngirni og öðru, en myndi hæstv. ráðherra verða ánægður ef Bretar færu út og yrðu eftir það á betri viðskiptakjörum en EES-löndin og Ísland? Hvernig myndi hann bregðast við þá?