150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

bótakröfur í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði hér þegar dómur Hæstaréttar féll og ég bað þá sem þá voru sýknaðir afsökunar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Sú afsökunarbeiðni stendur. Í kjölfar hennar var skipuð sáttanefnd sem við höfum stundum rætt á vettvangi þingsins. Starf hennar tók töluverðan tíma og ég hef líka rætt á vettvangi þingsins að ég hefði kosið að hún hefði lokið verki sínu fyrr, en um leið viðurkenni ég að málið er flókið og einstætt í Íslandssögunni þannig að það er enginn öfundsverður af því verkefni sem sáttanefndin fékk.

Hv. þingmaður innir mig eftir afstöðu minni í þessu máli. Þá vil ég upplýsa hann og aðra hv. þingmenn um það að á morgun hyggst ég leggja fyrir ríkisstjórn frumvarp, sem ég mun svo fá að mæla fyrir á Alþingi og óska eftir afstöðu Alþingis til, um heimild til þess að gera samkomulag um bætur til þeirra sem sýknaðir voru með dómnum frá því í september 2018, annars vegar þá sem eftir lifa og hins vegar afkomendur þeirra sem þá voru sýknaðir. Ég held að það sé mjög mikilvægt í ljósi þess hvernig málið er vaxið, því að fyrir liggur að bótakrafa Guðjóns Skarphéðinssonar er á leið fyrir dóm, að Alþingi taki afstöðu til þess og þeirrar fjárhæðar sem ég mun leggja til þannig að Alþingi og löggjafarvaldið muni tala skýrt í því máli.

Hvað varðar greinargerð setts ríkislögmanns í málinu sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um er það svo að greinargerðir almennt þegar ríkislögmaður tekur til varna fyrir íslenska ríkið eru lagðar fram í nafni framkvæmdarvaldsins ef marka má og (Forseti hringir.) ef miða má við álit umboðsmanns frá árinu 2013. Ég ætla aðeins að koma nánar að því hvernig vinnulagið hefur verið í síðara svari mínu.