150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023. Tillagan er lögð fram af ríkisstjórn Íslands samkvæmt 11. gr. jafnréttislaga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

Tillagan samanstendur af 24 verkefnum sem er ætlað að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi og endurspegla um leið forgangsröðun stjórnvalda. Öll ráðuneyti gerðu að þessu sinni tillögur um verkefni og er það í fyrsta sinn sem svo er síðan gerð var framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og varð lögbundin skylda stjórnvalda árið 1985, sem sýnir að það skýra markmið, að kynjasjónarmið séu samþætt í alla stefnumótun á vegum stjórnvalda, er að skila raunverulegum árangri. Öll verkefnin eru tengd við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og er það í fyrsta sinn sem það er gert í vinnu við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Ég bind vonir við að Ísland verði í hópi forysturíkja til að ná heimsmarkmiði 5, um jafnan rétt karla og kvenna fyrir árið 2030. Við erum ekki komin þangað enn þá, en ég tel að við höfum fulla burði til að ná því markmiði og deila um leið reynslu okkar í þessum málum með öðrum þjóðum, því að heimsmarkmiðin eru gríðarlega mikilvægur leiðarvísir fyrir öll ríki til að skapa betri samfélög og ná þeim skýru markmiðum sem þjóðir heims hafa sammælst um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Skrifstofa jafnréttismála í forsætisráðuneytinu hafði yfirumsjón með gerð áætlunarinnar í samráði og samstarfi við jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta, auk þess sem haft var samráð við Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð. Við gerð nýrrar áætlunar var jafnframt tekið tillit til umræðna um skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála fyrir tímabilið 2015–2017 á jafnréttisþingi, samanber 10. og 11. gr. jafnréttislaga, en þingið var haldið í fimmta sinn 7.– 8. mars 2018. Verkefni tillögunnar fóru svo til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í sumar og bárust alls sex umsagnir sem komið var á framfæri við ráðuneytin. Í kjölfar samráðsins var gerð ein breyting á áætluninni sem laut að Jafnréttissjóði Íslands en aðrar tillögur úr samráðsferlinu verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd áætlunarinnar.

Virðulegi forseti. Um margt getum við verið stolt af árangri okkar í jafnréttismálum enda er litið til Íslands sem fyrirmyndar á heimsvísu. En eins og ég sagði áðan fer því fjarri að við höfum náð endastöð. Kynbundinn launamunur er töluleg staðfesting á því, en jafnlaunavottun er ein leið til að útrýma honum. Við þurfum þó í vaxandi mæli að líta til hins almenna launamunar sem er á milli karla og kvenna af því að hann er mælikvarði á það misrétti sem enn fyrirfinnst í samfélaginu. Fæstir myndu halda því fram að konur vinni minna en karlar ef allt er tekið með í reikninginn. Þær vinna enn árið 2019 ólaunuð störf langt umfram karla. Það á að vera okkur keppikefli að loka þessu kynjabili.

#Metoo-frásagnir kvenna hér á landi leiddu einnig í ljós ofbeldi, áreitni og mismunun sem konur í öllum lögum íslensks samfélags þurfa að þola. Þessi mismunun margfaldast í tilfelli kvenna af erlendum uppruna og við vitum líka að misrétti tekur á sig aðrar myndir þegar fatlaðar konur eiga í hlut. Viðbrögð við #metoo-hreyfingunni er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar og við getum ekki við unað fyrr en við höfum útrýmt kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni með öllu.

Í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar var sérstakri skrifstofu jafnréttismála komið á fót í upphafi þessa árs í forsætisráðuneytinu á grundvelli tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands þar sem stjórnarmálefni um jafnréttismál voru flutt frá ráðherra félagsmála yfir til forsætisráðherra. Hlutverk skrifstofunnar er m.a. að halda utan um heildstæða stefnumótun í jafnréttismálum þar sem forsætisráðuneytið hefur lykilhlutverki að gegna í krafti samhæfingarhlutverks síns.

Stýrihópur um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi var settur á laggirnar snemma árs 2018. Meginhlutverk hans er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland verði ávallt í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Hópurinn hefur komið tillögum á framfæri við ráðherranefnd um jafnréttismál um hvernig megi bæta réttarstöðu brotaþola kynferðisbrota og eru þær nú til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu. Hópurinn vinnur jafnframt að því að móta stefnu um aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi. Þá hefur verið skipuð nefnd sem heyrir undir stýrihópinn og hefur það verkefni að móta forvarnastefnu fyrir Ísland með aðkomu fagaðila og í samráði við frjáls félagasamtök, fagfélög og fræðafólk. Hópurinn áætlar að skila tillögum sínum snemma árs 2020.

Í júní sl. samþykkti Alþingi jafnframt þingsályktunartillögu félagsmálaráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, en þar er að finna metnaðarfulla aðgerðaáætlun til þriggja ára. Ráðuneytin hafa samhæft verkefni sín til að tryggja sem best samfellu milli þessara verkefna og sömuleiðis þeirra verkefna sem unnin eru á vettvangi forsætisráðuneytisins. Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum byggist á þessu starfi og á fyrri áætlunum, allt með það að markmiði að við nýtum þekkingu og fjármuni sem allra best í þágu málaflokksins.

Virðulegi forseti. Tillaga um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum felur í sér 24 verkefni sem falla undir sex kafla. Kaflarnir endurspegla áherslu stjórnvalda á sviði jafnréttismála þar sem öll ráðuneyti hafa hlutverki að gegna við framkvæmd hennar. Fyrsti kaflinn lýtur að stjórnsýslunni þar sem sjö verkefni eru tilgreind. Meðal verkefna er að gera úttekt á þeim rannsóknum og verkefnum sem hafa hlotið styrk úr Jafnréttissjóði Íslands sem stofnaður var í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna árið 2015. Sjóðurinn er til fimm ára og verður úthlutað úr honum að óbreyttu í síðasta sinn á komandi ári og framkvæmt þá mat á því hvernig fjármagn úr sjóðnum hefur nýst á tímabilinu. Þetta er þó mál sem ég tel að Alþingi þurfi að taka afstöðu til, hvort ekki sé vilji til þess að viðhalda sterkum jafnréttissjóði, þó að endanleg fjárhæð sjóðsins sé auðvitað alltaf matsatriði hverju sinni.

Jafnréttismál snerta starfs- og stefnumótunarsvið allra ráðuneyta og fara mörg ráðuneytanna með viðamikla málaflokka sem hafa víðtæk áhrif á stöðu og þróun jafnréttismála hér á landi. Samþætting kynja og jafnréttissjónarmiða er mikilvæg leið til að ná markmiðum jafnréttis við alla ákvarðanatöku og stefnumótun í stjórnkerfinu. Mun þeirri vegferð verða haldið áfram á gildistíma nýrrar áætlunar auk kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar í samræmi við 1. og 17. gr. jafnréttislaga og 18. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, undir forræði forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis og með þátttöku jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta. Jafnframt mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti taka byggðaáætlun fyrir tímabilið 2018–2024 til sérstakrar skoðunar út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum með það að markmiði að leiðrétta greindan kynjahalla við framkvæmd aðgerða og úthlutanir til byggðamála. Um er að ræða verkefni sem gæti þjónað sem fyrirmynd fyrir önnur ráðuneyti enda snerta jafnréttismál öll málefnasvið Stjórnarráðsins.

Eitt af meginmarkmiðum jafnréttislaga er jafnrétti á vinnumarkaði. Í öðrum kafla framkvæmdaáætlunarinnar eru fimm verkefni, þeirra á meðal er framhald vinnu við innleiðingu jafnlaunavottunar í samræmi við lög um jafnlaunavottun, nr. 56/ 2017, en nú þegar hefur fjármagni verið úthlutað til að tryggja að innleiðing laganna gangi sem best fyrir sig. Áhugavert er að kynna sér það að innleiðing þessara laga, sem mun vissulega taka tíma, er að skila sér. Þær stofnanir og þau fyrirtæki sem hafa lokið við að innleiða jafnlaunavottun greina frá því samkvæmt könnun sem forsætisráðuneytið hefur gert, að það hafi mjög jákvæð áhrif á ýmsa aðra þætti á vinnustað og í vinnustaðamenningu. Ég held því að við eigum eftir að sjá töluverðar umbætur á öðrum sviðum líka sem fylgja innleiðingu þessara laga.

Annað verkefni snýr að því að meta framkvæmd ákvæða laga um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem tóku gildi árið 2013. Í því samhengi má nefna að undanfarin tvö ár hafa stjórnvöld stutt átaksverkefni Félags kvenna í atvinnurekstri, sem ber titilinn Jafnvægisvogin, og lýtur að því að fá fyrirtæki til að jafna hlutföll karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja sem lögin ná til og sér í lagi framkvæmdastjórnum.

Þá vil ég nefna aukinn rétt foreldra til fæðingarorlofs úr níu mánuðum í 12 mánuði í tveimur áföngum á tímabilinu 2020–2021 þar sem gert er ráð fyrir að hvort foreldri um sig fái fimm mánuði til ráðstöfunar og sameiginlega tvo mánuði. Auðvitað á Alþingi eftir að taka afstöðu til endanlegra frumvarpa félags- og barnamálaráðherra um þau mál. En hugsunin er sú að áfram verði hluti fæðingarorlofsins til að deila milli foreldra og sömuleiðis að ákveðinn fjöldi mánaða sé eyrnamerktur móður og föður, því að þetta er auðvitað lykilatriðið í því hversu miklu kynjajafnrétti íslenska fæðingarorlofskerfið hefur skilað. Þetta er liður í því að auka jafnrétti á vinnumarkaði og innan heimilis og áhugavert er að segja frá því að samkvæmt könnun sem var kynnt norrænum jafnréttisráðherrum nýlega í þessum mánuði kom fram að íslenskir feður eru mjög jákvæðir í garð þess að lengja fæðingarorlof. Þar mælist ákveðinn munur á íslenskum feðrum og öðrum norrænum feðrum sem bendir til þess að íslenskir feður séu jákvæðari að þessu leyti, sem er mjög áhugavert og vekur upp spurningar og bendir til þess að kerfið okkar hafi náð ákveðinni rótfestu í samfélaginu og orðið til þess í raun og veru að breyta gildismati.

Þriðji kafli framkvæmdaáætlunarinnar snýr að baráttunni gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Með vísan til fullgildingar samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum kveður ný framkvæmdaáætlun á um gerð stefnumarkandi landsáætlunar um framfylgd samningsins í samræmi við 10. og 11. gr. hans og er unnið að undirbúningi fyrir fyrstu fyrirtöku Íslands árið 2021 hjá eftirlitsnefnd samningsins með framkvæmd skuldbindinga hans.

Annað verkefni í þessum kafla framkvæmdaáætlunar hefur það að markmiði að stuðla að auknu jafnrétti innan raða lögreglunnar.

Undir fjórða kafla áætlunarinnar um jafnrétti, menntun og menningu, íþróttir og æskulýðsstarf, er mennta- og menningarmálaráðuneytið með fjölda aðgerða. Þær lúta með einum eða öðrum hætti að því að leiðrétta kynjahalla innan menntakerfisins í heild, sem og að taka á þeim veruleika sem #metoo-frásagnir kvenna og stúlkna í íþróttum endurspegla. Aðgerðirnar fela m.a. í sér að efla fræðslu og þekkingu um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni, hótanir og ofbeldi meðal barna og ungmenna, auk allra þeirra sem vinna í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Jafnframt er lögð mikil áhersla á að skapa öruggt umhverfi í íþrótta- og æskulýðsstarfi með aðgerðum sem miða að því að uppræta kynbundið áreiti og ofbeldi sem eiga að tryggja að allir geti leitað sér aðstoðar eða réttar síns án ótta við afleiðingarnar.

Fimmti kafli framkvæmdaáætlunarinnar er tileinkaður körlum og jafnrétti þar sem m.a. verður litið til hlutverks karla í að uppræta menningu sem einkennist af kynbundinni mismunun sem ýtir undir og afsakar kynbundna og kynferðislega áreitni, hótanir og ofbeldi, sem og hugsanleg skaðleg áhrif karlmennskuhugmynda á heilsufar karla.

Lokakafli áætlunarinnar snýr að jafnréttisstarfi Íslands á alþjóðavettvangi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er þar með verkefni sem lýtur að því að auka vitund neytenda um neikvæð áhrif af fjöldaframleiðslu fatnaðar út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum, sem og stöðu kvenna sem vinna við framleiðslu slíkra klæða, mikilvægi hringrásarhagkerfisins og hlutverk neytenda á eftirspurnarhliðinni.

Að lokum eru tilgreind þrjú verkefni sem unnin verða á vettvangi utanríkisráðuneytisins og lúta að því að halda fleiri rakarastofuráðstefnur hjá alþjóðastofnunum með það að markmiði að virkja karla í jafnréttisbaráttunni. Þá er ætlunin að innleiða jafnréttisvottun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands í samstarfi við þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna. Ein aðgerð snýr að því að ryðja úr vegi kynbundnum viðskiptahindrunum og breiða út þá þekkingu sem hefur skapast á Íslandi varðandi jafnrétti, t.d. á vegum uppbyggingarsjóðs EES, undir heitinu Jafnrétti til útflutnings.

Þingsályktunartillögunni fylgir skýrsla hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, sem þá hét svo, um stöðu og þróun jafnréttismála fyrir tímabilið 2015–2017, sem og svar ráðherra við fyrirspurn um stöðu verkefna í núgildandi framkvæmdaáætlun sem gildir út árið 2019.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir verkefnum í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020–2023. Ég held að þetta séu metnaðarfull verkefni og metnaðarfull áætlun, en það sem mér finnst mest um vert er að skynja að jafnrétti er ekki einkamál neins eins ráðuneytis, að það eru öll ráðuneyti að koma hér inn með verkefni út frá kynjasjónarmiðum, sem er auðvitað lykillinn að því að við náum þessum áþreifanlegu breytingum og framþróun í kynjajafnréttismálum. Það er í sjálfu sér mikilvægur áfangi.

Ég legg til, herra forseti, að tillögunni verði vísað að lokinni þessari umræðu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og síðari umræðu.