150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[11:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vík fyrst að spurningu hennar um mælikvarðana, hvernig við mælum árangur ráðuneyta. Við munum fá svör frá öllum ráðuneytum um þau verkefni sem undir þau heyra í gildandi framkvæmdaáætlun fyrir jafnréttisþing sem verður haldið í febrúar á næsta ári. Þá verður gerð grein fyrir stöðu allra verkefna. Það er mikilvægt að við séum stöðugt að meta framgang mála í þeim efnum og það getur verið misflókið en síðan sé ég fyrir mér að í því verkefni sem við erum búin að setja af stað hvað varðar velsældarmælikvarða í stefnumótun ríkisins, þar á meðal fjármálaáætlun og fjárlagagerð framtíðar, þurfum við líka að huga að kynjasjónarmiðum þegar við setjum á laggirnar nýja mælikvarða. Það eru stærri mælikvarðar og ekki eins margir og í framkvæmdaáætluninni en ég held að við þurfum líka að hafa augun á því að við þurfum að hafa einhverja yfirmælikvarða í þessum stóru plöggum.

Svo tek undir með hv. þingmanni um kynjasjónarmið í byggðamálum. Þetta er risamál og það sem mér finnst áhugavert er að við erum að færa mörkin í því hvar við tölum um og nýtum kynjasjónarmið við stefnumótun. Hv. þingmaður nefndi byggðamál. Við horfum til þess líka að fara í verkefni á sviði samgöngumála þegar kemur að kynjaðri fjárlagagerð því að það hefur sýnt sig til að mynda að fjárfesting í ólíkum samgöngumátum kemur út með mismunandi hætti fyrir karla og konur. Þetta er nokkuð sem ég held að geti víkkað dálítið út umræðuna um samgöngumál með því að bæta kynjavíddinni inn í umræðu um þau sem kennir okkur að þetta getur í raun og veru átt við í öllum málaflokkum.