150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[11:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja fram þessa framkvæmdaáætlun og lýsa því yfir að við í Samfylkingunni erum býsna ánægð með að svona mál komi fram og munum af fullum heilindum leggja gott inn í umræðuna og beita okkur fyrir því að þetta plagg verði sem best. Þetta skiptir okkur öllu mjög miklu máli. Við höldum því fram að jöfnuður og jafnrétti séu forsenda farsæls, góðs og kraftmikils samfélags, svo ekki sé nú talað um að það rímar ágætlega við þær áherslur um velsældarsamfélagið sem hæstv. forsætisráðherra hefur talað mikið um og við fleiri og fleiri erum meðvituð um að verður að vera svarið við áskorunum framtíðarinnar á öllum mögulegum sviðum, svo sem loftslagsmálum og bara til að gera samfélagið betra.

Okkur hefur miðað mjög vel á mörgum sviðum og við höfum fulla ástæðu til þess að vera dálítið upplitsdjörf og ánægð með hvað hefur þó miðað og eigum ekki síst að geta verið gott fordæmi fyrir aðrar þjóðir. En það eru aðrir hlutir sem ganga kannski hægar og það er nú einu sinni þannig að það eru þessir formlegu hlutir, lögin og reglurnar, sem kannski er hægt að ná tiltölulega hraðri og góðri sátt um en síðan er alltaf erfiðara að breyta gildismati og hugmyndum fólks. Í þessu tilfelli þegar um er að ræða árþúsundagamalt kerfi sem hefur örugglega verið á kostnað jafnréttis þá skiptir ekki síður máli að við leggjum mikla vigt á þann hluta eins og hæstv. forsætisráðherra kom ágætlega að í sjálfu sér. Hér á maður auðvitað við kynferðislegt ofbeldi, kynbundinn launamun og annað slíkt. Ég hef auðvitað áhyggjur af þessu verðmætamati af því að það er bara svo ótrúlega stutt síðan að manni fannst það sjálfum sjálfsagt. Fyrir mig sem elst upp á heimili með fjórum systrum kom mér það býsna mikið í opna skjöldu þegar þær fóru í fermingarveislum síðar að ýja að því að ég hefði nú verið meðhöndlaður aðeins öðruvísi og gerðar öðruvísi kröfur til mín en þeirra í uppvextinum. Ég taldi, búandi á heimili hjá föður sem vaskaði upp og gerði ýmislegt, að það væri tiltölulega mikið jafnrétti á því heimili en staðreyndin var sú þegar maður fór að skoða það betur að það var ástæða fyrir þessum vangaveltum. Ég gengst alveg við því að það voru gerðar öðruvísi kröfur til mín en þeirra, algerlega óréttmætar. Eins er ég kominn á sextugsaldur og er hluti af menningu sem er ekki ásættanleg í dag og karlar þurfa að taka ábyrgð á. Þá á ég auðvitað við þá umræðu sem hefur verið býsna áberandi í tengslum við #metoo o.fl. Þar held ég að sé mikið verk að vinna og 5. kaflinn fer auðvitað aðeins inn á það, karlar og jafnrétti. Ég held að það skipti máli að við séum meðvitaðir um það og tökum þátt í því.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því og við þurfum að passa okkur á því að jafnréttið nái upp og niður alla stiga samfélagsins, ef svo má segja. Það er nauðsynlegt og gott að tryggja jafnrétti og jafnræði í stjórn fyrirtækja, á þingi, við ráðherraborðið og öðru slíku. En við þurfum líka að hafa áhyggjur af láglaunakonum sem eru kannski bryggjukarlar okkar dags sem vinna ómanneskjulega og erfiða líkamlega vinnu en bera úr býtum allt of lág laun. Ég á við konur af erlendum uppruna sem hafa kannski takmarkaðan rétt, takmarkaða rödd og við þurfum að huga vel að þessum hópum.

Svo getur maður auðvitað ekki sleppt því að minnast á hvernig birtingarmyndin er á öllum sviðum þjóðlífsins, í menningu, listum og íþróttum. Þegar ég lærði í Noregi fyrir 30, 40 árum síðan og spilaði handbolta með karlaliði þá kom mér mjög á óvart að þar var kvennaliðinu hampað. Kvennaliðið var stóri klúbburinn hjá því félagi og leikir með þeim voru sýndir á laugardögum, það komu 1.500 manns að horfa á leikinn með þeim en 500 á okkur. Manni lærðist að það er ekkert sjálfsagður hlutur að karlaíþróttir séu skör ofar en kvenna, þetta snýst um verðmætamat og gildismat og í því tilfelli var það einfaldlega vegna þess að þær voru miklu betri og það var skemmtilegra að horfa á þær. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hugum að þessu.

Það var komið ágætlega inn á mjög margt sem lýtur að því og ég treysti hæstv. forsætisráðherra mjög vel til að sinna þessum málaflokki og ég held að Jafnréttissjóður Íslands skipti máli, jafnvel þótt framlagið sé skert tímabundið, sýnist mér.

Mig langar aðeins að ræða það að ég veit og geri mér grein fyrir því að við höfum kannski meira ómeðvitað en meðvitað og óskilgreint frekar en skilgreint lagt töluverða áherslu á kynjamál, jafnréttismál þegar kemur að utanríkismálastefnu Íslands. Það birtist í áherslum okkar í mörgum verkefnum. Það birtist í ræðum ráðherra okkar á alþjóðavettvangi og birtist í þróunaraðstoð. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur örugglega kynnt sér utanríkismálastefnu Svía sem hafa beinlínis skilgreint utanríkisstefnuna sem femíníska og mér finnst það skipta máli og velti fyrir mér hvort við eigum ekki bara að leyfa okkur að segja hlutina svona berum orðum.

Við erum alltaf að fá fleiri og fleiri mál á okkar könnu sem hætta að vera mál einstakra ráðuneyta, sem ganga upp og niður allan stigann. Jafnréttismálin eru nákvæmlega eins og loftslagsmálin, þau verða einhvern veginn að gegnumsýra alla málaflokka og vera ráðandi í þeim. Þess vegna held ég að það sé að mörgu leyti heppilegt að hæstv. forsætisráðherra taki utan um þann málaflokk og sjái til þess að þessu sé sinnt á öllum sviðum þjóðlífsins og að fjárlög okkar séu kynjuð, þau séu raunverulega kynjuð. Hér voru nefnd áðan samgöngumál og rannsóknir hafa nefnilega sýnt að það skiptir máli að velta fyrir sér í hvers konar framkvæmdir er ráðist. Kynjuð framkvæmdaáætlun í samgöngukerfinu mun hvetja til fjölbreyttari notkunar samgöngumannvirkja, mun hvetja til almenningssamgangna, mun hvetja til stígagerðar og göngustíga, bæði vegna þess að reynslan hefur sýnt sig að notendurnir eru í auknu hlutfalli konur en ekki síður af því að þar koma konur líka frekar að vinnu við gerð þessara mannvirkja.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Það er ánægjulegt að við skulum vera búin að fá þetta í fangið og við munum reyna eins og við getum að leggja gott til umræðunnar.