150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[11:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hér sé komin fram framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023 og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsögu hennar um málið þar sem hún fór yfir það hvað þetta mál spannar vítt svið. Auðvitað spanna jafnréttismálin allt samfélagið.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs hérna og langar að koma með vinkil inn í þessa umræðu er að núna í morgun var ég á morgunverðarfundi Öryrkjabandalags Íslands þar sem Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur var að kynna rannsókn sína á fjöldaþróun örorkulífeyrisþega. Þar fannst mér gríðarlega áhugavert og í raun sláandi sem hann sagði um að örorkumálin eru kynjapólitískt mál. Í yngsta aldurshópnum eru karlar í meiri hluta þeirra sem fá örorkumat en svo verða konurnar fleiri og kynjamunurinn eykst með hækkandi lífaldri. Ég hef ekki séð tekið á og rætt um þróun í hópi örorkulífeyrisþega áður í svona sterku kynjapólitísku ljósi. Þetta er glæný skýrsla. Mér finnst mikilvægt að í framhaldinu, í vinnu þingnefndar og auðvitað í allri vinnu sem einnig á sér stað á vettvangi hæstv. ríkisstjórnar verði horft til þessara nýju upplýsinga eða mér liggur við að segja nýju framsetningar á upplýsingum þar sem eru dregin út ný atriði. Það skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð, vegna þess að svo stór hluti útgjalda ríkisins fer til örorkulífeyrisþega, að vita að þarna horfa málin svolítið ólíkt við eftir kyni. Þetta skiptir okkur líka máli þegar við erum að ræða um vinnumarkaðinn því að það er eitthvað við vinnumarkaðinn sem gerir það að verkum að konur detta frekar út af honum vegna krankleika sem hlýst kannski af einhverju í samfélagsgerðinni og þessum sama vinnumarkaði.

Ég veit að þessi umræða mun halda áfram og mun fara á dýptina. Það kom einnig fram í morgun að í nóvember verður Tryggingastofnun með ráðstefnu þar sem verður m.a. fjallað um kynjamyndir lífeyrisgreiðslna. Hér erum við að fá fullt af nýjum upplýsingum sem ég tel að sé rosalega mikilvægt að við tökum með þegar við ræðum það sem við ætlum að gera á komandi árum í jafnréttismálum. Eðlilega er þetta ekki inni í þessari framkvæmdaáætlun, skýrslan sem ég er að vísa í kom út í morgun, en mig langar að beina því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að kynna sér þessi gögn og eins að beina því til forsætisráðuneytisins, og í rauninni allra ráðuneyta, að kynna sér þau því að hér held ég að við séum að fá efnivið í hendurnar til þess að geta þróað velferðarkerfi okkar betur og skilja enn betur hvernig það hefur ólík áhrif á kynin í samfélaginu.

Að þessu öllu sögðu hlakka ég bara til þess að að lokinni meðferð allsherjar- og menntamálanefndar verði þessi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum samþykkt því að það er gríðarlega mikilvægt að hafa svona áætlun til að vinna eftir.