150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[12:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt. Ég þakka þingmanninum fyrir að benda á hversu margslungin kynjavíddin er þegar kemur að heilbrigðismálum og lífsgæðum, lífslíkum og því öllu og er nokkuð sem við í allsherjar- og menntamálanefnd munum eflaust taka til skoðunar. Í samfélaginu var nýlega mikil umræða um afleiðingar meðgöngueitrunar sem hafa verið vanmetnar og konur jafnvel ekki upplýstir um þá áhættu sem meðgöngueitrun getur haft síðar meir hvað varðar t.d. hjartasjúkdóma. Þetta sýnir svo vel hvað það skiptir alltaf miklu máli að vera með kynjagleraugun á nefinu þegar við erum að skoða kerfin okkar, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu þar sem lífsskeið kynjanna eru ólík þegar kemur að sjúkdómum sem hrjá þau. Ef við skoðum dánarmeinaskrá eru karlar miklu líklegri til að deyja á yngri skeiðum en konur, þar hífa sjálfsvíg og slys karlana upp. Konur eru miklu líklegri til að deyja af völdum æxla en karlar af völdum hjartasjúkdóma. Þetta er allt saman nokkuð sem við þurfum að greina og höfum ekki gert nógu vel fyrr en á allra síðustu árum. Ég tek heils hugar undir áskorun þingmannsins til okkar í allsherjar- og menntamálanefnd og get lofað henni að þetta verður skoðað ofan í kjölinn.