150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[12:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja málið fyrir þingið. Það er ekki hægt að gera lítið úr mikilvægi áætlunar sem þessarar í jafnréttismálum. Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram að vinna markvisst að því að styrkja og efla okkur á öllum sviðum jafnréttismála. Það er margt mjög jákvætt og gott í þessari áætlun sem vert er að fagna. Mér finnst sérstaklega vert að minnast á þá miklu áherslu sem hér er finna á að uppræta kynbundið ofbeldi sem er enn allt of víðtækt og viðvarandi vandamál í íslensku samfélagi. Því miður stöndum við illa í alþjóðlegum samanburði. Þetta er mein í okkar samfélagi sem við verðum öllum stundum að vinna að því að uppræta með öllum þeim ráðum sem við eigum til, fræðslu og aðgerðum. Það er að sama skapi mjög ánægjulegt að sjá áhersluna á #metoo-umræðuna og aðgerðir til að fylgja eftir þeirri mikilvægu byltingu sem þar er á ferðinni og tryggja að ekki komi bakslag í hana eins og við heyrum svo mjög í umræðunni í dag að hætta sé á. Ég fagna því sérstaklega að lögð sé rík áhersla á þetta tvennt.

Þó að við vitum öll sem hér störfum að það hallar miklu frekar á konur en karla í jafnréttisumræðunni almennt má samt ekki gleymast í umræðunni að það eru líka þættir þar sem við þurfum að huga að körlum. Ánægjulegt er að sjá varðandi mikið brottfall drengja úr framhaldsskóla að lagt sé upp með aðgerðir til að taka á þeim mikla vanda. Það er mjög alvarlegur veruleiki í íslensku menntakerfi í dag að drengjum gengur þar mun verr en stúlkum og þeir flosna í miklu ríkari mæli upp úr námi með alvarlegum afleiðingum fyrir líf þeirra og lífsgæði þegar fram í sækir.

Ég get heldur ekki sleppt því að minnast á og lýsa yfir ánægju með að áfram sé haldið því mikilvæga verkefni að efla þátttöku karla í jafnréttisumræðunni. Þetta er ekki bara kvennamál, þetta er mál okkar allra, við eigum öll að taka höndum saman um jafnréttismálin. Við verðum að uppræta þá hugsun sem mér finnst oft vera svo ríkjandi, að karlar líti á jafnréttismál sem ógn við sína tilvist eða tilveru, að þegar reynt er t.d. að jafna hlut kvenna á vinnumarkaði beinist það einhvern veginn gegn körlum. Það er ekki tilfellið og við njótum þess öll í lífsgæðum og betra samfélagi að vinnumarkaðurinn sé réttlátari og betri hvað þetta varðar. Það er fagnaðarefni og ég held að það sé mjög mikilvægt að fá karlmenn miklu meira inn í jafnréttisumræðuna. Það er enn landlægt þegar maður mætir á fundi þar sem verið er að ræða jafnréttismál að kynjahlutfallið sé 90/10, jafnvel í besta falli. Það er alls ekki nógu gott því að við karlar verðum líka að taka þátt í þessari umræðu og leggja okkar af mörkum.

Í sumum málum eins og þeim augljósu, umræðunni um kynbundið ofbeldi og umræðunni um #metoo, vitum við sem er að karlar eru í yfirgnæfandi meiri hluta gerendur í málunum og það er á okkar ábyrgð að uppræta þá menningu sem skapar það umhverfi. Það er algjörlega nauðsynlegt að karlar axli ábyrgð og taki þátt í þessari umræðu af heilum hug.

Það er tvennt sem ég vil helst gagnrýna og vona að nefndin taki í umfjöllun sinni til nánari skoðunar. Mér finnst ansi margt í áherslum þessarar jafnréttisáætlunar svolítið kerfislægt, snúa að stjórnsýslunni og að fókusinn sé inn á við, ef mætti orða það svo. Ég er ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að við horfum inn á við, það er bara svo mikilvægt líka að við beitum jafnréttisáætlun sem þessari út á við, út í samfélagið allt. Til að gæta fullrar sanngirni eru nefnd fjölmörg verkefni í áætluninni en það er athyglisvert að þau flest teljast fjármögnuð og það er vitað að við erum með stór vandamál í samfélaginu sem þarf að taka á og mun verða mjög kostnaðarsamt að uppræta þó að vissulega komi til þess kostnaðar í gegnum aðra kanala í þinginu en akkúrat þessa áætlun.

Þar horfi ég á eitt öðru fremur. Við höfum notið þeirra forréttinda að vera í 1. sæti á heimsvísu í jafnréttismálum í alþjóðlegum samanburðarkönnunum í mörg ár. Mér finnst að skýrt markmið svona jafnréttisáætlunar eigi að vera hvernig við ætlum að vera þar áfram. Hvernig ætlum við að tryggja að Ísland verði áfram í forystu í jafnréttismálum? Það á alltaf að vera metnaður okkar að við séum þar og að við séum þar af leiðandi óhrædd við að feta nýjar leiðir, prófa nýjar lausnir til að ná meiri árangri.

Það sem ég sakna helst í þessari áætlun snýr að vinnumarkaðnum. Mér finnst kaflinn um jafnrétti á vinnumarkaði helst til fátæklegur og þar er sérstaklega tvennt. Það er viðvarandi vandamál að við erum með mikinn kynbundinn launamun í gegnum kynskiptan vinnumarkað. Það er staðreynd, við þekkjum ekki alveg umfangið af því að við höfum ekki greint það en við sjáum í hendi okkar að fjölmennar kvennastéttir eins og umönnunarstéttir og kennarar njóta einfaldlega ekki menntunar sinnar í launaávinningi í neinum samanburði við langskólagengnar karlastéttir, eða karllægar stéttir getum við sagt, eins og t.d. í raungreinum. Þar myndi ég vilja sjá skýrari áherslu og að það verði af metnaði ráðist í að taka á þeim vanda. Það sem helst dregur okkur niður í alþjóðlegum samanburði er að við erum með kynskiptari vinnumarkað en önnur Norðurlönd, hér er áberandi mikill launamunur sem þarf að laga. Í öðru lagi er glerþakið okkar heldur sprunguminna en glerþakið í nágrannalöndum okkar. Við erum með mun lakari stöðu í samanburði þegar kemur að hlutfalli kvenna í millistjórnendastöðum og æðstu stjórnendastöðum og við höfum ekki tekið kerfisbundið á þeim vanda. Við þurfum að finna leiðir til að hvetja fyrirtæki til meiri metnaðar og meiri aðgerða í þeim efnum. Þetta er ekki bara spurning um kynbundinn launamun, staðreyndin er sú að kynin njóta ekki jafnra tækifæra þegar kemur að framgangi á vinnumarkaði. Það sýna okkur allar opinberar tölur. Engin kona stýrir skráðu fyrirtæki í dag. Mér finnst það ótrúlegt í samfélagi sem stærir sig af miklu jafnrétti og það hallar verulega á konur í öllum stjórnendalögum. Því verður reyndar að halda til haga að þar hefur hið opinbera staðið sig mun betur en einkageirinn og er ástæða til að spyrja sig hverju sæti að einkageirinn sé svona langt á eftir í þessu efni.

Ég vildi sjá tekið á þessu af miklu meiri festu í áætlun sem þessari. Það hlýtur að vera lykilatriðið. Ef við horfum á einfalda markmiðssetningu erum við að segja: Já, við verðum að taka af festu á kynbundnu ofbeldi, við verðum að taka #metoo-umræðuna alvarlega og sýna að það sé raunverulegur vilji til aðgerða. Ég fagna því að það sést greinilega í þessari áætlun. Við verðum samt líka að taka á vinnumarkaðnum, misskiptingunni sem þar er og þeirri staðreynd að konur njóta einfaldlega ekki jafnra tækifæra til framgangs. Ég vona sannarlega að áherslan á það verði aukin í meðhöndlun nefndarinnar á þessu mjög svo mikilvæga máli. Það er fagnaðarefni að áætlunin sé komin fram og ég vona að enn frekar verði skerpt á henni í meðhöndlun þingsins.