150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[12:29]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að mæla fyrir þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023. Það er margt mjög gott í þessari áætlun þó að auðvitað myndu margir vilja sjá hærri fjárhæðir settar í ákveðin verkefni og ég hefði líka viljað sjá verkefni sem snúast um að valdefla og styrkja konur af erlendum uppruna, aðgerðir um flóttakonur og flóttastúlkur og svo kom líka mjög góður punktur fram í máli þingmanna áðan um konur og heilsu þeirra. Við höfum séð mikið og þarft átak um áfallasögur kvenna og stúlkna og hvernig áföll kvenna, sem oft eru af völdum kynferðislegs ofbeldis eða vandamála er varða meðgöngu og fæðingu, eiga gríðarlega stóran þátt í andlegri og líkamlegri heilsu kvenna og fylgja þeim út lífið og eru stór hluti af heilsufari kvenna og þeirri heilbrigðisþjónustu sem við veitum alla jafna. Á þetta mætti setja meiri áherslu og vonandi að hv. allsherjar- og menntamálanefnd komi inn á það í meðförum áætlunarinnar.

Hér eru líka gríðarlega þarfar og góðar aðgerðir og mig langar að nefna viðbrögð við #metoo-hreyfingunni sem er mjög gott að sjá í framkvæmdaáætluninni og svo líka eftirfylgni með fullgildingu Íslands á Istanbúl-samningnum sem er einn mikilvægasti alþjóðasamningurinn að mínu mati sem við erum aðilar að.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu en mig langar að tæpa á alþjóðastarfinu. Hér eru nokkur atriði um það. Ég hef rætt það áður í þingsal að í utanríkisstefnu okkar ættum við að líta til utanríkisstefnu Svía vegna þess að árið 2015 settu þeir á fót sérstaka utanríkisstefnu sem er femínísk og gerðu það mjög markvisst og kerfisbundið. Það er ekki alltaf nóg að tala um jafnréttismálin á erlendum vettvangi og taka þau upp þó að það sé vissulega góðra gjalda vert og nauðsynlegt en þá þarf líka að setja niður ákveðnar aðgerðir. Ég nefni þetta sem dæmi og það er ekki bara Svíþjóð sem hefur gert þetta heldur líka Kanada sem heldur úti mjög skýrri utanríkisstefnu sem kemur inn á femíníska sýn og stefnumótun.

Í framkvæmdaáætluninni er undir alþjóðastarfinu kafli um kyn og neyslu, sem er vitundarvakning um hringrásarhagkerfið út frá kynjavinkli sem er sérstaklega góður og tengist loftslagsmarkmiðum okkar. Það er gríðarlega gott mál en að vísu mjög lítill peningur settur í það. Vonandi leiðir það til áframhaldandi starfs. Síðan er þátttaka karla í jafnréttismálum, innleiðing jafnréttisvottunar í þróunarsamvinnu, sem er mjög gott, og jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum. Þarna mætti að mínu viti líta til Svíþjóðar og Kanada og gera betur í utanríkisstefnu og alþjóðastarfi. Í raun mætti segja að þróunarsamvinnustefna okkar ætti að hverfast um tvennt, jafnréttismálin og loftslagsmálin.

Við leggjum áherslu á þátttöku karla í jafnréttismálum í alþjóðastarfi okkar og utanríkismálastefnu en ég held að við þurfum aðeins að uppfæra það stýrikerfi, ef ég mætti orða það sem svo, og einblína frekar á aðgerðir og áherslur okkar er varða frið og þátttöku kvenna í friðargæslunni. Það eru mörg tækifæri þegar kemur að alþjóðasamstarfi og utanríkismálastefnu sem samrýmast stefnu okkar í jafnréttismálum. Það sem þarf að gera í því er að fínpússa það, gera það skýrara og koma fram með ákveðnar aðgerðir. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að líta til þess og vonandi er utanríkisráðherra líka einhvers staðar að hlusta. Að sjálfsögðu vonast ég til að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni líta til þess líka með einhverjum hætti eða að við sjáum það skýrar árið 2023 þegar uppfærsla á áætluninni verður tekin fyrir og hún endurskoðuð.

Ég held að þetta yrði til fyrirmyndar vegna þess að þó að Ísland skori hátt á ákveðnum stöðlum er varða jafnréttismál er ýmislegt sem við megum bæta. Það er stundum mjög gott og gaman að vera Íslendingur á erlendri grundu því að litið er til okkar á Íslandi þegar kemur að jafnréttismálum og vísað í staðla sem mæla ákveðin atriði mjög vel en taka ekki tillit til annarra þátta, til að mynda kynferðisofbeldis, heimilisofbeldis og meðferðar kynferðisbrota í dómskerfinu. Hér er líka bent á stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og ráðuneyti sem eiga þar sæti og vonast ég til að við förum að sjá frá þeim stýrihópi markvissar aðgerðir og tillögur til úrbóta um meðferð þessara mála í dóms- og réttarfarskerfinu.

Áðan var talað um vinnumarkaðinn og atvinnulífið og á alþjóðavettvangi skorum við hátt á ýmsum stöðlum er varða opinbera þátttöku á vinnumarkaði en við þurfum að taka okkur á þegar kemur að dóms- og réttarkerfinu. Ég vildi bara nefna alþjóðamálin í þessu samhengi og vísa til þeirrar góðu stefnu sem finna má í utanríkisstefnu Svíþjóðar og Kanada. Þar eru góðar fyrirmyndir þegar kemur að því að beita okkur á alþjóðavettvangi. Eins gott og frábært HeForShe-verkefnið er held ég að við þurfum að fara að þróa okkur þegar kemur að viðlíka átaksverkefnum eða áherslum. Ég held að það yrði Íslandi til góða og vekti eftirtekt. Að sjálfsögðu verður gott að sjá þessa tillögu samþykkta í þingsalnum og halda svo áfram veginn í jafnréttismálunum sem við munum vonandi öll styðja sem hér sitjum.