150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

146. mál
[14:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég lít svo á að einhver stærstu mistök undanfarinna áratuga á sviði alþjóðamála hafi átt sér stað við lok kalda stríðsins árið 1989 þegar ákveðið var að framlengja líf Atlantshafsbandalagsins í stað þess að láta það fara sömu leið og hitt hernaðarbandalag eftirstríðsáranna, Varsjárbandalagið; að þar hafi glatast gott tækifæri til að byggja upp nýtt öryggiskerfi sem stuðlaði að lýðræði, friði og stöðugleika í Evrópu.

Mál fóru ekki þannig og þegar hinn yfirlýsti andstæðingur var úr sögunni réðu að mínu mati hagsmunir vopnaframleiðenda miklu um það að Atlantshafsbandalagið fékk framhaldslíf, enda leggur bandalagið í raun ríkar skyldur á herðar meðlima sinna varðandi framlög bæði til vígbúnaðar og hernaðarmála. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég tel útþenslustefnu og stækkun Atlantshafsbandalagsins hættulega og heiminum til óþurftar. Ég held að það sé alveg óumdeilt að til að mynda Rússland telur öryggi sínu ógnað með vígvæðingu og fjölgun aðildarríkja NATO sem og uppsetningu á eldflaugavarnarkerfum Atlantshafsbandalagsins í Evrópu, og að þetta hafi svo aftur haft áhrif á hina pólitísku umræðu í Rússlandi.

Ég tel þess vegna að frekari stækkun á bandalaginu sé ekki jákvætt skref í öryggismálum Evrópu og að vænlegra væri, til að gæta friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum, að efla aðrar stofnanir, til að mynda ÖSE. Jafnframt mætti endurskipuleggja öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Það er afstaða míns flokks og við erum þeirrar skoðunar að við teljum einfaldlega Atlantshafsbandalagið verulega ógn við frið og öryggi í heiminum. Því endurtek ég það sem ég segi, ég tel ekki að neitt jákvætt komi út úr frekari stækkun Atlantshafsbandalagsins.

Nú fer þetta mál til vinnslu í hv. utanríkismálanefnd en ég sé ekki þar sem ég stend í dag að afstaða mín til inngöngu Norður-Makedóníu verði á nokkurn hátt önnur en hún var síðast þegar Atlantshafsbandalagið var stækkað. Þá sat ég hjá við atkvæðagreiðslu í málinu með þeim sömu rökum og ég hef fært hér fram í dag. Ég vænti þess frekar, ég vil ekki taka fastar en svo til orða, að það verði einnig afstaða mín þegar þetta mál kemur aftur inn til síðari umr.