150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

mótun klasastefnu.

121. mál
[14:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að flytja þetta mál. Það eru a.m.k. tveir áratugir síðan sá er hér stendur heyrði fyrst talað um klasa og ég verð að viðurkenna að þegar minn ágæti fyrrverandi skólabróðir, Þorsteinn Broddason, kom æstur til mín norður í Skagafirði og sagði að við þyrftum að skoða þessa klasastefnu hélt ég að hann væri að tala um einhvern sjúkdóm. Klasar? Þetta var eitthvað sem maður hafði ekkert heyrt talað um. Annað kom á daginn, það form sem um er að ræða er, og hefur sýnt sig vera vettvang og uppsprettu margs konar starfsemi, hugmynda, samstarfs og samvinnu sem út úr hefur komið ný þjónusta, nýjar vörur, framfarir í tækni o.s.frv. Við höfum séð að á Íslandi hafa ýmsir aðilar tekið sig saman og myndað klasa eða samstarfsvettvang. Þekktastir eru vitanlega þeir klasar sem hér hafa verið taldir upp, t.d. jarðhitaklasinn og sjávarútvegsklasinn. Álklasinn er eitt og ferðamálaklasinn og svo er landbúnaðarklasinn þar sem menn í landbúnaðargeiranum taka sig saman og reyna að finna leiðir til að örva nýsköpun og nýjar leiðir í slíkri starfsemi.

Í tillögunni sjálfri, sem er í sjálfu sér ekki mjög flókin, er hugmynd um að búa til stefnu sem feli í sér að skilgreina betur hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið og rannsókna- og menntastofnanir o.s.frv. Ég held að það sé mjög mikilvægt — og í sjálfu sér þarf enginn að vera hræddur við það — að hið opinbera hafi einhvers konar sýn eða stefnu í þessum málum. Það er mjög gott að hið opinbera leiði jafnvel saman aðila sem síðar taka upp á því að mynda einhvers konar samstarf eða koma sér saman um að efla nýsköpun á sínum vettvangi, búa jafnvel til klasa í framhaldinu og í raun geta þeir verið stórir eða smáir. Þeir þurfa ekki endilega að vera innan sömu greinar. Það má velta fyrir sér hvort Blábankinn á Þingeyri sé ekki í raun klasi þar sem menn eru búnir að koma saman ákveðinni þjónustu til að viðhalda þjónustustigi á staðnum eða heima fyrir og reyna að sjálfsögðu að efla það og bæta við. Það eru margar hliðar á þessu sem við köllum klasa.

Í þingsályktunartillögunni er rakin reynsla annarra sem er sjálfsagt að horfa til. Reynslan á Íslandi er líka mjög góð, eins og kom fram hjá 1. flutningsmanni þessa máls. Ég vona eins og aðrir sem hér hafa talað að nú fái málið framgang og verði til þess að hugmyndafræðin fái meiri athygli og meiri stuðning og verði til þess að efla samstarf innan ákveðinna atvinnugreina, ekki síst þvert á atvinnugreinar. Við höfum séð að samstarf í sjávarklasanum, svo að dæmi sé tekið, er uppspretta hugmynda sem síðar geta orðið stórar. Auðvitað verða ekki allar hugmyndir að veruleika en þarna kynnast ólíkir aðilar, sjá hvað aðrir eru að gera, geta miðlað reynslu, þekkingu o.s.frv.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Þetta er í sjálfu sér ekki flókin tillaga, það er ánægjulegt að sjá hversu margir sýndu þessu máli áhuga. Ég vonast til að tillagan fái góða umfjöllun í þeirri nefnd sem hún fer til, væntanlega atvinnuveganefnd, og verði kláruð með glans í þinginu á tilsettum tíma.