150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

mótun klasastefnu.

121. mál
[14:59]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég tek til máls til að ítreka þann stuðning sem ég sýndi þessu máli síðast þegar það var endurflutt. Það er endurflutt aftur núna og ég er mjög ánægður með að sjá það og vil aðeins minna á að upphaf klasastefnu má rekja til samstarfs vísindamanna sem hefur aukist smám saman í flestöllum eða öllum greinum og á milli greina og eins samstarf fyrirtækja í ólíkum greinum. Þetta hefur gerst á áratugum, þróast allhratt og við getum með fullri vissu sagt að þetta sé fyrirrennari klasastefnunnar en hún hefur svo þróast sjálfstætt. Það hefur myndast ákveðin hugmyndafræði sem er sameiginleg með þeim sem stunda klasastefnu.

Eins og hefur komið fram í máli annarra hv. þingmanna hefur klasastefna á Íslandi sýnt gagnsemi sína. Menn hafa nefnt sjávarútveginn og jarðhitann en það er hægt að nefna mörg fleiri dæmi. Það er auðvitað hárrétt að það þarf að setja þessari starfsemi einhvers konar opinberan ramma sem er til bóta, bæði til að skýra hugmyndafræðina og opna tengingar milli ólíkra aðila, hvort sem það er á sviði mennta, rannsókna eða atvinnuvega, og síðast en ekki síst setja fram einhvers konar leiðbeiningar eða kröfur. Kröfur eru kannski of hart orð en a.m.k. leiðbeiningar um starfshætti klasa.

Mig langar aðeins að vekja athygli á einu sem ég held að ég hafi ekki gert síðast og það er að auðvitað er hægt að hugsa sér margs konar klasa. Oftast er átt við einhvers konar samstarf innan atvinnuvega, t.d. í framleiðslu eða þjónustu, en ég vil líka draga fram loftslagsmálin ein og sér. Það er alveg hægt að hugsa sér klasasamstarf sem beinist að loftslagsmálum, kannski í ætt við samstarf sem núna er kallað Hafið sem snýst um að finna nýjar leiðir til að knýja áfram stærri skip, þar koma inn sjávarútvegsfyrirtæki o.fl., og láta þessa klasa snúast um rannsóknir og nýsköpun, ákveðnar framkvæmdir, bæði á vegum fyrirtækja og stofnana eða hvað við viljum, sem sagt aðgerðir gegn losun og aðgerðir sem valda bindingu kolefnis. Það er líka hægt að hugsa sér þetta sem einhvers konar klasasamstarf um viðbrögð, þ.e. aðlögunina að loftslagsbreytingunum. Þetta er þá ýmist gert með því að stofna þá sérklasa sem ég nefni eða vefa loftslagsmálin inn í klasasamstarf í atvinnuvegunum sjálfum, að reyna að hafa þann prófíl eða fókus í hávegum að horfa til loftslagsmála. Við erum að tala um þetta í almennri löggjöf, því ekki að gera þetta líka þegar um er að ræða víðtækt samstarf í samfélaginu? Þannig munum við auðvitað efla viðspyrnuna í þeim mikilvæga málaflokki.

Ég ítreka stuðning Vinstri grænna, ef ég má gera það fyrir þeirra hönd, og hvet áfram til afgerandi þverpólitískrar samstöðu og afgreiðslu þessa mikilvæga máls.