150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

128. mál
[15:52]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og er því kominn hingað upp til að lýsa yfir stuðningi mínum við það. Þó er það ekki alveg einfalt mál að öllu leyti og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé dró vel fram eitt af því sem olli mér nokkrum heilabrotum um þetta mál. Ég skal alveg játa það. Annað er það að ég er frekar jákvæður í garð þessarar stofnunar, þjóðkirkjunnar, eins og hún starfar nú. Ég tel að hún gegni mjög mikilsverðu hlutverki í íslensku þjóðlífi og sé mikilvæg fyrir það fjölmarga fólk í landinu sem nýtir sér þjónustu hennar. Ég tel líka að þjóðkirkjan sé að mörgu leyti farsæll farvegur fyrir trúarþörf landsmanna. Við megum ekki gera lítið úr því að kannski er ein af frumhvötum mannsins þörfin fyrir að lifa trúarlífi sem getur birst á margs konar hátt. Þjóðkirkjan, hin evangelíska lúterska þjóðkirkja, hefur í seinni tíð verið hófsamur og jákvæður farvegur fyrir tilbeiðslu- og bænaþörf sem margt fólk hefur og við megum ekki gera lítið úr. Auk þess hefur kirkjan þjónað sem mikilvægur félagslegur vettvangur, vettvangur fyrir ýmiss konar félagsstarf og þannig mætti lengi telja. Það er auðvelt að sýna fram á að þjóðkirkjan á Íslandi sé þjóðþrifastofnun.

En það sem mér finnst kannski vera mikilvægustu rökin fyrir því að styðja þetta mál varðar ekki endilega kristna trú eða starf þjóðkirkjunnar sem slíkrar og ekki einu sinni það sem eru þó kannski meginrök fyrsta flutningsmanns, frelsis- og jafnræðisrökin, þ.e. að allir trúarhópar njóti jafnræðis, sem eru vissulega mikilsverð rök sem ég fellst á. Mikilvægast af öllu í mínum huga er að ég lít svo á að grundvöllur samfélagsgerðar okkar vestrænu evrópsku samfélaga sé alger aðskilnaður hins trúarlega sviðs og hins veraldlega sviðs. Þetta er mjög mikilvægt í því hvernig þessi samfélög hafa þróast og hvernig þau fara að því að ráða fram úr sínum málum, taka ákvarðanir um bæði réttindi og skyldur borgaranna og bara hvaðeina í samfélögunum. Þar höfum við komið okkur upp ferlum sem við kennum við þingræði og lýðræði. Einn grundvöllur þeirra er að taka valdið úr höndum hins trúarlega sviðs og færa það yfir á hendur kjörinna fulltrúa. Það er þannig ekki lengur klerkaveldi sem tekur ákvarðanir um líf okkar eins og var raunin á fyrri öldum þegar kirkjan hlutaðist til um stórt og smátt í lífi fólks og var alveg ótrúlega afskiptasöm um daglegt líf, hafði í rauninni reglur og bænir um nánast hverja stund sólarhringsins. Sú tíð er liðin, til allrar hamingju, og samfélag okkar er orðið veraldlegt. Líf okkar fer fram á veraldlegum forsendum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að þetta er mikilvægt að varðveita og festa í sessi. Ég lít svo á að þetta verði ekki endanlega fest í sessi nema með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju.

Það er annar þáttur líka sem mig langar að drepa á áður en ég hætti og það er að ég tel að það sé alveg gríðarlega mikil þörf fyrir heildstæða löggjöf um trú- og lífsskoðunarfélög. Það hafa komið upp dæmi á seinni árum um fjárplógsstarfsemi í nafni slíkra félaga sem hefur verið erfitt fyrir stjórnvöld að taka á. Stjórnvöld hafa jafnvel ekki haft úrræði til að taka á svikastarfsemi og fjárplógsstarfsemi sem hefur farið fram í nafni trúfélaga. Það er mjög mikilvægt að það verði einhvern veginn fest í sessi að slík félög fái ekki viðurkenningu sem trú- og lífsskoðunarfélög og fái ekki að innheimta gjöld — eða fái ekki gjöld — nema þau geti sýnt fram á að tilteknum skilyrðum sé fullnægt.

Að þessu öllu saman sögðu er ég sannfærður um að þessi aðskilnaður sem færi fram á löngum tíma yrði þessari mikilvægu stofnun, þjóðkirkjunni, til góðs og hún verði áfram mjög mikilvægur þáttur í íslensku þjóðlífi.