150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[16:58]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Mér er ljúft að stíga í ræðustól Alþingis í dag af þessu tilefni og flytja ræðu, ekki mjög langa, af þessu tilefni. Þetta er merkilegt mál og mér er það ljúft sem formanni Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að vekja á því sérstaka athygli og þakka flutningsmanni fyrir að sitja svo fast við sinn keip að mæla fyrir því aftur. Þetta skiptir máli, Ísland er í þeirri einstöku stöðu að vera kannski stóri bróðirinn í þessu samstarfi vestnorrænu ríkjanna. Við höfum ýmislegt að gefa hér og höfum reynslu af því fyrirkomulagi sem um þetta gildir.

Lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi eru frá 1999 en hafa tekið einhverjum breytingum og hafa verið uppfærð síðan. Við höfum reynslu af þessu frá þeim tíma. Kvikmyndageirinn og kvikmyndagerðarfólk telur þetta skipta miklu. Erlendir kvikmyndaframleiðendur horfa á þetta og velja sér jafnvel tökulönd eða tökustaði með þetta í huga. Þá skiptir oft miklu máli 1 prósentustig til eða frá í endurgreiðslunum. Þetta eru töluverðar upphæðir, það hleypur á nokkur hundruð milljónum sem íslenska ríkið hefur verið að endurgreiða vegna allnokkuð margra erlendra kvikmynda. Þær hlaupa gjarnan á tugum en enn fleiri íslenskar myndir njóta þessa í rauninni. Kvikmyndagerðarfólk telur að þetta sé og hafi verið á sínum tíma algjör vítamínsprauta inn í þennan geira.

Hvað varðar okkar ágætu frændur, Grænlendinga og Færeyinga, er gróska í faginu, sérstaklega meðal ungs fólks. Það er gróska í kvikmyndagerð. Færeyingar settu á stofn fyrir tveimur árum kvikmyndamiðstöð, Filmshúsið, og henni er ætlað að fjárfesta í innlendri kvikmyndagerð, efla erlenda fjárfestingu í kvikmyndum og markaðssetja Færeyjar sem vettvang kvikmyndagerðar. Færeyingar hafa sett nokkra fjármuni í þetta verkefni og það virðist þegar bera ávöxt því að nú er á döfinni að taka James Bond mynd upp að hluta til í Færeyjum sem dæmi. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að þeir setja á laggirnar kvikmyndamiðstöð sína um að efla þennan þátt. Það er unga fólkið sem drífur þetta áfram. Færeyjar eru ekki fjölmenn þjóð, u.þ.b. 50.000 manns, og þar er bara eitt framleiðslufyrirtæki í kvikmyndagerð og ein sjónvarpsstöð og síðan eiga þeir fræðslumiðstöð í kvikmyndagerð, Klippfisk. Þeir stefna að því fullum fetum að styrkja innviðina í kvikmyndaiðnaðinum og kvikmyndagerðinni og efla þessa grein á sína vísu. Ég held að þetta geti orðið lyftistöng fyrir færeyska kvikmyndagerðarmenn því að það er orðið flókið verkefni að búa til eina kvikmynd. Það er mikil tæknivinnsla og búnaðarkröfur og þarna getum við orðið að liði og þeir notið góðs af.

Grænlendingar eiga sér ekki langa kvikmyndasögu því að fyrsta leikna grænlenska kvikmyndin var gerð árið 2008. Þetta listform er að verða stöðugt vinsælla og unga kynslóðin eflir þessa grein á Grænlandi. Kvikmyndahátíðin Greenland Eyes sem er vettvangur grænlenskar kvikmyndagerðar hefur orðið til að lyfta þessum málefnum frekar.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en vonast til að þingheimur taki frumvarpinu með þessum viðauka við lögin vel og að okkur lánist að afgreiða það með sóma og hratt því að þetta er bæði fjárhagslegt atriði og menningarlegt. Það er fjárhagslegt atriði fyrir Íslendinga líka að gera þetta og atvinnulegt atriði fyrir kvikmyndagerðarfólk. Ég hef þetta því ekki lengra að sinni.