150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[17:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er gaman að taka þátt í þessari umræðu sem er ánægjuleg að mörgu leyti þar sem við, vestnorrænu þjóðirnar, höldum áfram að binda sterkari bönd. Á sviði kvikmyndagerðar og sjónvarpsþáttagerðar eru miklir möguleikar og það sem Ísland gerði á sínum tíma, að bjóða upp á endurgreiðslu, hefur skipt miklu máli í að draga inn í landið kvikmyndagerð sem hefur vakið athygli á landi og þjóð. Það er kannski erfitt að meta efnahagslega hve miklu það hefur skilað okkur í kassann en þeir sem þekkja best til telja að það hafi skilað okkur miklu meira í skatttekjum en sem nemur endurgreiðslum af heildarframleiðslukostnaði, 25% af framleiðslukostnaði. Þetta er því ávinningur fyrir báða aðila. Það að draga inn í þessa mynd vinaþjóðir okkar, Færeyinga og Grænlendinga, og að hægt verði að taka upp hluta af verkefnum sem eru tekin 80% hér á landi, sem er skilyrði, jafnt í Færeyjum og á Grænlandi sem og innan annarra EES-landa er mikill ávinningur fyrir okkur sjálf og fyrir þessar þjóðir. Það vekur jákvæða athygli á landi og sögu þessara þjóða og tækifærum og er líka innspýting inn í þeirra efnahag.

Norðurslóðir fá mikla athygli eins og við þekkjum og vestnorrænu löndin eru líka í kastljósinu. Ég held að mikil tækifæri felist í því hjá hugmyndaríkum kvikmyndagerðarmönnum að tengja saman þessi þrjú lönd með sérstöðu sína og menningu, hvort sem er í sjónvarpsþáttaseríum eða kvikmyndum. Það er annarra að skapa og hugsa það upp. Ég held að þarna verði mikill hvati til að taka upp efni á Grænlandi og í Færeyjum samhliða því að vinna slík verkefni hér á landi. Við þekkjum samstarf sjónvarpsstöðva á Norðurlöndum í alls konar þáttagerð, sjónvarpsþáttum og heimildarmyndum. Norræn þáttagerð hefur notið vinsælda og við þekkjum sjónvarpsþætti og glæpaseríur og alls kyns seríur sem hafa orðið mjög vinsælar og sem ég held að séu hreinlega í tísku svo að kastljósið er á vestnorrænum slóðum. Ég held að það verði ekki bara mikill ávinningur fyrir Grænlendinga og Færeyinga að vera inni í þessari mynd heldur líka fyrir okkur og heilt yfir.

Ég hlakka til að fá málið inn í atvinnuveganefnd þar sem ég er formaður og ég er jafnframt í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Ég mun leggja mitt af mörkum til að hraða afgreiðslu þess með sem vönduðustum hætti og ég veit að ég fæ stuðning úr öllum áttum til þess.