150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[20:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég er í hópi þeirra sem telja að þetta mál eigi ekki erindi hingað inn á Alþingi aftur. Við erum með þrískipt vald, framkvæmdarvald, dómsvald og löggjafarvald. Framkvæmdarvaldið hefur oft og tíðum orðið bert að því að reyna að ganga á rétt löggjafarvaldsins og nú kemur fulltrúi framkvæmdarvaldsins, hæstv. forsætisráðherra, og vill fá löggjafarvaldið í lið með sér í því augnamiði að taka mál úr höndum dómstóla, þar sem það á heima, og gera Alþingi með einhverjum hætti ábyrgt fyrir lyktum málsins. Svo að það sé alveg skýrt þá er sá sem hér stendur ekki löglærður en er meira að segja eldri en hv. þm. Brynjar Níelsson, eins og fram kom áðan, þannig að hann hefur fylgst með þessu hörmungarmáli alveg frá byrjun og fylgst með öllum þeim vendingum sem orðið hafa á þessum 45 árum, eða hvað það nú er, sem hafa margar verið ótrúlega dapurlegar.

Ég tel að með því að við alþingismenn séum að taka þetta mál hingað inn á Alþingi séum við að setja það fordæmi að taka mál úr höndum dómstóla sem enn eru að kljást við málið, nota bene. Það er ekki einu sinni svo að þessu hörmungarmáli muni lykta hér, með því að það verði afgreitt hér með einhverjum hætti, því miður. Það endar ekki hér og nú vegna þess að einn af hinum sýknuðu hefur þegar hafið mál gegn ríkinu og aðrir hafa boðað að þeir muni gera það líka. Og hvað er þá Alþingi að gera núna með því að fjalla um þetta mál hæstv. forsætisráðherra? Jú, okkur er gert að setja gólf í málið. Okkur er gert að setja fram og samþykkja lágmarksbætur í málinu, sem er ekki verkefni löggjafans. Það er verkefni dómstóla. Okkur er gert að verðmeta með einhverjum hætti eina mannsævi eða hluta hennar sem hefur verið lifað í skugga þessa máls. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög tregur að taka þátt í því.

Ég tek undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði hér áðan. Hæstv. forsætisráðherra fór mjög vel af stað með þetta mál en einhvers staðar lagði hún lykkju á leið sína, hugsanlega vegna þess að greinargerð ríkislögmanns kom fram. Þá spyr maður sig líka: Hver er staða ríkislögmanns, og ég er ekki að tala um persónuna heldur embættið, eftir þessa vendingar? Á það embætti von á því, ef verulega erfið álitamál koma upp, að framkvæmdarvaldið grípi fram fyrir hendurnar á því eða breyti snögglega um kúrs eða stefnu í miðju máli? Þetta er eitt atriðið. Svo þegar þessi vending er orðin í málinu kemur hæstv. forsætisráðherra með það hingað inn og hendir því í fangið á þinginu. Af hverju? Mér er það alls ekki ljóst eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra. Hún talaði hér um einhverja sérfræðinga sem eru bæði andlits- og nafnlausir. Hugsanlega koma þeir í ljós þegar málið verður tekið til nefndar og gera þá skýrari grein fyrir því hvað liggur til grundvallar þeirri niðurstöðu sem hæstv. forsætisráðherra byggir það á að koma með málið inn í þingið aftur, sem er miður.

Mér finnst þetta satt að segja mjög alvarlegt fordæmi og ég get ekki horft fram hjá því að mér finnst þetta mistök. Líka vegna þess, eins og ég hef áður sagt, að þetta verður ekki til þess að ljúka þessu hörmulega máli, því miður. Það verður ekki til þess, enda kannski vænlegast úr því sem komið er, eftir að sýknudómur lá fyrir, að dómstólar myndu ákveða bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir miska, ærumeiðingum og þjáningum.

Ég segi aftur: Ég er alveg svakalega tregur til þess að taka þátt í þessari meðferð málsins og ég tel það rétt sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði áðan, að að mörgu leyti væri vænlegast að þessu máli yrði hreinlega komið út aftur, það verði tekið til baka út úr þessum þingsal. Ef það er vilji hæstv. forsætisráðherra að stjórnmálin komi að lausn málsins verður sú lausn ekki fundin hér í opinni umræðu. Þó að umræðan í dag hafi verið hófstillt og málefnaleg, að mínu mati, finnst mér ekki góður bragur á því að við séum að ræða þetta mál með þessum hætti hér, og þess vegna kæri ég mig heldur ekki um að vera að togast mikið á við forsætisráðherra, sem ég ber mikla virðingu fyrir, um málið. Ég tel einfaldlega að þarna hafi henni orðið á mistök sem hægt sé að laga og leiðrétta með því einfaldlega að fara með málið héðan út aftur.

Mikið hefur verið talað um þær þjáningar og þann miska sem þeir sem sátu árum saman saklausir í varðhaldi og fangelsi þurftu að líða og þeirra aðstandendur, og það er alveg rétt. Auðvitað breytir einhver peningaupphæð engu um það út af fyrir sig. Hæstv. forsætisráðherra gerði mjög vel þegar hún baðst afsökunar á þessum málatilbúnaði strax og sýknudómur Hæstaréttar lá fyrir. Það var mjög vel gert og snöfurmannlega, af kjarki, en þess vegna megum við ekki nú á seinni stigum þessa máls gera það verra viðskiptis en áður var.

Eitt er það líka sem ég verð að koma að í þessari ræðu: Mér er algjörlega ljóst að þetta mál, þetta frumvarp, fjallar um þá einstaklinga sem voru sýknaðir af Hæstarétti á sínum tíma og mér er algerlega ljóst að frumvarpið, og þetta mál allt, varðar þá og afkomendur þeirra, þjáningu þeirra, miska og sorg og þann skugga sem málið hefur varpað á allt þeirra líf. En ég verð að minnast á, þar sem ég hef fylgst með þessu máli allt frá því að þessir atburðir gerðust, að ég man ekki til þess, ég verð þá bara leiðréttur ef svo er, að nokkurn tíma hafi verið rætt um missi, miska og sorg aðstandenda Geirfinns Einarssonar og Guðmundar Einarssonar. Hafi það einhvern tímann verið gert þá skal ég glaður éta þessi orð ofan í mig, en ég man ekki til þess að það hafi verið gert. Og talandi um fórnarlömb í þessu máli þá hefur ekkert spurst til þessara manna síðan þessir atburðir urðu. Ég verð líka að viðurkenna að það hefur hleypt í mig nokkurri gremju og meira en það að einkalíf þessara manna og fjölskyldna þeirra hefur verið notað sem uppistaða í sjónvarpsmyndir og blaðagreinar. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og sérstaklega hefur þetta leitað á mig undanfarin dægur. Hver er réttur þessa fólks? Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, eins og ég sagði áðan, að þetta frumvarp fjallar einungis um þá sem sýknaðir voru á sínum tíma en ég finn mig knúinn til að minnast á það fólk sem missti nákomna sem ekkert hefur spurst til í 45 ár. Að mínum dómi hefur aldrei verið rætt um það með nokkrum hætti hvort þeir aðilar þessa hörmulega máls eigi hugsanlega rétt á einhverju af hendi ríkisins, ég er ekki endilega að tala um bætur. Ekki hefur einu orði verið vikið að þessu fólki svo að ég muni til, aldrei. Það hefur aldrei verið minnst á að það hafi orðið fyrir missi. Þetta set ég bara inn hér til umhugsunar. Þessir menn eru fórnarlömb vegna þess að ekkert hefur til þeirra spurst og sannarlega hljóta þeirra nákomnustu að hafa þjáðst ósegjanlega á öllum þeim tíma sem liðinn er. Það hlýtur að vera eins og að salti sé stráð í sárin með vissu millibili þegar þetta mál hefur verið endurvakið, sérstaklega með þeim hætti sem gert hefur verið undanfarin ár.

Ef ég mætti ráðleggja hæstv. forsætisráðherra myndi ég ráðleggja henni að taka þetta mál til baka aftur og leita leiða til að stjórnmálin geti fjallað um það, ekki hér heldur annars staðar, og komið þá fram með sameiginlega sýn sem víst er að allir séu sammála um. Ég held að við eigum það öll skilið, þjóðin öll. Ég held að þingið eigi það líka skilið að þetta mál hljóti þá meðferð. Ég tala ekki um þá sem eiga um sárt að binda út af þessu máli og hafa átt um sárt að binda út af því í tæp 50 ár. Ég held að það væri góður bragur á því, fyrst að þetta mál er komið til kasta stjórnmálanna, að reynt verði að leiða það til lykta þannig að allir geti verið jafnsettir á eftir. Ég held satt að segja að það gæti orðið viss prófsteinn á það hvað hægt er að gera í stjórnmálum ef menn taka höndum saman, hvar sem menn eru staddir í pólitík. Auðvitað er mál eins og þetta ekki flokkspólitískt mál að einu eða neinu leyti. Það snýst ekki um pólitík. Þetta snýst um virðingu fólks. Þetta snýst um virðingu fyrir lífi fólks og um virðingu fyrir þjáningu þess og viðurkenningu þar á.

Komum öll saman fram og tölum um það einum rómi og verum sammála um það hvað við ætlum að gera. Og ég segi aftur: Setjum ekki það fordæmi að Alþingi taki mál frá dómstólum. Það fordæmi er svo alvarlegt. Þó að allir óski þess að mál af þessum toga komi aldrei aftur upp vitum við að allt getur gerst. Það getur allt gerst þó að við eigum að finna leiðir til þess að slík mistök, eins og greinilega voru gerð í þessu máli á sínum tíma, verði aldrei aftur gerð. Það verður að búa þannig um hnúta að það sé alveg tryggt að mál þeirra sem eru sakaðir eða ákærðir séu leidd fram af eins mikilli fagmennsku og hægt er og af hlutlægni og ábyrgð. Þetta var nú bara eitt af því sem ég vildi stinga inn í þessa umræðu. Ég hvet forsætisráðherra til að íhuga mjög vel það sem fram hefur komið í þessari umræðu í dag.