150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

meðferð sakamála.

170. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég geri stuttlega grein fyrir minnihlutaáliti á þskj. 205. Ég ætla að fara yfir þau atriði sem þar koma fram en vísa að öðru leyti til minnihlutaálitsins sjálfs. Í fyrsta lagi telur minni hlutinn þinglega meðferð á þessu máli hafa verið óviðunandi, eins og mér reyndar sýnist óumdeilt en menn bera fyrir sig nauðsyn. Í öðru lagi kom fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar að í ljós hefði komið að hraða þyrfti meðferð frumvarpsins þann 1. september sl., 2019. Í greinargerð frumvarpsins kemur aftur á móti fram að þetta hefði átt að vera orðið ljóst af skýrslu um úttekt FATF í apríl 2018, í fyrra. Þannig að minni hlutinn fær ekki séð að það hafi verið þörf á því að bíða svona lengi með þetta mál. Það hefði mátt leggja það fram miklu fyrr þannig að það fengi sómasamlega þinglega meðferð. En svo var ekki eins og frægt er orðið. Í þriðja lagi snýr frumvarpið að eignarrétti og það er stuttlega farið yfir það í greinargerð frumvarpsins hvernig það er talið standast ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Nú má vel vera að þau rök séu góð og gild en það vannst ekki tími til að fara yfir þau almennilega að mínu mati og engin rökræða átti sér stað um það og mér þykja rökin ekki sérstaklega sterk við fyrstu sýn. Vel má vera að þau gangi upp en þegar þinglega meðferðin er svona er ekki hægt að tryggja það með viðunandi hætti að áliti minni hlutans.

Síðast en ekki síst vekur minni hlutinn athygli á því að umsagnaraðilar, þeir aðilar sem sóst var eftir sérstaklega að fá afstöðu frá, voru dómsmálaráðuneytið sjálft, héraðssaksóknari, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari og tollstjóri. Þetta eru allt aðilar sem komu að samningu frumvarpsins. Það hefði verið skrýtið ef þeir hefðu verið á móti því eða hefðu eitthvað við það að athuga. Við höfum ekki heyrt frá neinum aðilum sem gætu orðið fyrir þessari löggjöf, með réttu eða röngu. Við vitum ekkert um það, hvort sem það eru fjármálastofnanir eða hver annar. Ég veit ekki einu sinni hvaða aðilar það ættu að vera. Þinglega meðferðin einfaldlega náði ekki fram að ganga og enginn umsagnarfrestur var veittur, þar af leiðandi bárust engar innsendar umsagnir umfram þær sem var sérstaklega beðið um frá þeim sem sömdu frumvarpið eða tóku þátt í því. Vel má vera að þetta mál sé sauðmeinlaust og bara hið besta mál. Ég get ekki vitað það af svona þinglegri meðferð og minni hlutinn getur því ekki stutt málið að svo stöddu.