150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

meðferð sakamála.

170. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það lá alveg fyrir að það ætti að samþykkja þetta mál fyrir miðnætti á morgun og þess vegna yrði ekki það umsagnarferli sem þarf til að svona mál fái viðeigandi meðferð. Ég stakk ekki upp á neinum gestum, það alveg rétt hjá hv. þingmanni, enda hafði ég hreinlega ekki tíma til þess að velta því fyrir mér hvaða gestir það ættu að vera. Við ræddum þetta aðeins í nefndinni. Hv. þingmaður er ekki ósammála því að þetta er eins skammur tími og hægt er að hafa til að samþykkja frumvarp yfir höfuð. Þannig að ég ætla bara, með fullri virðingu, virðulegi forseti, að hafna því að ég beri ábyrgð á vinnubrögðum við meðferð málsins. Það liggur alveg ljóst fyrir hver ber ábyrgð á þeim. Enn fremur, eins og segir í minnihlutaálitinu, þá hefur legið fyrir frá því í fyrra að það þyrfti að ráðast í þessar lagabreytingar samkvæmt skýrslu um úttekt FATF og þess vegna hefði þetta mál alveg getað fengið þá þinglegu meðferð sem það átti skilið.

Nú vorum við í stjórnarandstöðunni beðin um svokallað gott veður af hæstv. forsætisráðherra til þess að þessi mál kæmust sem hraðast í gegn. Ég er sjálfur þannig gerður að ég vil helst ekki búa til vandamál. Ég vil leysa vandamál. Þegar ég sá fyrir mér að það væri algjörlega óhugsandi að þetta mál fengi þá þinglegu meðferð sem það ætti að fá gerði ég ekkert sem ég taldi að myndi tefja fyrir málinu en ég held að það sé alveg ljóst að ég gat ekki gert mér í hugarlund hvaða gestir það ættu að vera og jafnvel þótt við hefðum fengið einn eða tvo gesti hefði það ekki dugað. Það er alveg sama hvernig er litið á þetta. Þessi málsmeðferð einfaldlega dugar ekki til. Það er ástæða fyrir því að við erum með tveggja eða þriggja vikna umsagnarfrest á málum. Þegar mál varðar t.d. stjórnarskrá lýðveldisins, eignarrétt þar inni, þarf augljóslega slíkt ferli. Ég get alveg tekið við þessari pillu hv. þingmanns, ef pillu skal kalla, en ég frábið mér að bera ábyrgð á þinglegri meðferð þessa máls. Það er alveg ljóst hvar sú ábyrgð liggur. Hún liggur hjá ríkisstjórninni sjálfri.