150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

37. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Við erum vissulega ekki með fjármagn til að gera allt sem okkur langar til að gera. En til að svara því fyrst held ég að kostnaðarhlutdeild sjúklinga sé í sjálfu sér ekki mikil. Við getum nefnt sem dæmi að komugjöld eru ekki há en þó veit ég dæmi þess að fólk mæti ekki inn á göngudeild vegna þess að það veigrar sér við að greiða þann kostnað. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að við höfum aðra langvinna lífsógnandi sjúkdóma og við þyrftum að huga betur að því hvernig við komum til móts við fólk varðandi þá. Ég nefni sem dæmi fólk með MS-sjúkdóm. Það gæti haft mikið gagn af því að þurfa ekki að greiða sína meðferð. En miðað við það sem er annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi, sem skrifað er um í greinargerð, er ekki gerður greinarmunur á þeim sjúkdómum, það er rétt. Ég vonast til að við komumst þangað, að fólk þurfi ekki að greiða krónu fyrir alla lífsógnandi sjúkdóma. Nóg er nú samt.