150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

37. mál
[18:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir. Ég er einn meðflutningsmanna að tillögunni og hún hljóðar á þann veg að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að krabbameinsmeðferðir verði gjaldfrjálsar, þ.e. að ráðherra vinni að því að lækka þann kostnað sem sjúklingar verða fyrir vegna krabbameinsmeðferðar. Það er kannski það allra erfiðasta í lífi hvers manns þegar hann greinist með alvarlegan sjúkdóm, eins og krabbamein oftast er, og ekki er á það bætandi þær áhyggjur sem fylgja slíkri greiningu og baráttunni í kjölfarið að viðkomandi þurfi þá líka að berjast við eða hafa knýjandi fjárhagsáhyggjur í framhaldi af slíkri greiningu og meðferð. Við getum ekki, að mínu mati, talist fremst meðal velferðarþjóðfélaga fyrr en við útrýmum því að fólk sem greinist með alvarlega sjúkdóma, eins og krabbamein sannarlega er — við erum enn að heyra sögur, allt of oft, af fólki sem upplifir í kjölfar greiningar og meðferðar örbirgð, það er upplifunin í kjölfar þess að greinast með alvarlega sjúkdóma. Við getum ekki kallast velferðarþjóðfélag í þeim skilningi á meðan við horfum upp á slíkt. Það verður að vera fallhlíf í samfélaginu til að taka á þessu og að fólk þurfi ekki, alls ekki, að veigra sér við að velja einhverjar meðferðir eða úrræði sem í boði eru þegar fólk greinist með slíka sjúkdóma vegna efnahags, af því að það hefur ekki fjármagn til að þiggja eða kaupa þjónustu, lyf, meðferðir, viðtöl eða hvað sem það heitir sem í boði er.

Ég styð tillöguna heils hugar og ítreka það sem ég sagði að tillagan fjallar um að ráðherra beiti sér fyrir því að þessar meðferðir verði gjaldfrjálsar, sem þýðir í raun að ráðherra geti tekið einhver skref í þá átt. Ég held að það sé mjög brýnt að það sé gert sem allra fyrst.