150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

37. mál
[18:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Íslenskt þjóðfélag er nú sem betur fer að rísa úr öskustónni hægt og bítandi og því er þjóðfélagið í betri færum en áður til að koma til móts við þá sem erfiða og þunga eru hlaðnir, eins og stendur í heilagri ritningu. Ég held að það sé í sjálfu sér nógu þungbært fyrir hvern þann sem fær þann úrskurð að hann gangi með krabbamein, úrskurðurinn sjálfur er nógu þungbær og erfiður hverri manneskju og nánustu ættingjum, hvað þá heldur að þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur sem koma til af meðferð sem fólk þarf að gangast undir. Því er þessi tillaga komin fram, sem ég er mjög stoltur að vera meðflutningsmaður að.

Ég hjó eftir því áðan að einn ágætur þingmaður spurði: Af hverju þessi sjúkdómur? Sem betur fer er hröð þróun í lyfjum sem gagnast við ýmsum tegundum krabbameina en því fylgir að ný lyf eru gríðarlega dýr þegar þau koma fyrst fram. Þess vegna er það önugt ef einstaklingar sem ganga með þennan sjúkdóm þurfa að hugsa sig um hvort þeir taki meðferð sem krefst dýrara lyfs en þeir hafa kannski fengið áður Því er þessi tillaga lögð fram. Við Miðflokksmenn höfum svo sem talað fyrir því áður að heilbrigðiskerfið á Íslandi taki ævinlega inn nýjustu og bestu lyf við lífsógnandi sjúkdómum og má þar nefna MS og MND, svo að ég nefni dæmi að auki fyrir utan þann sem hér er fjallað um. Okkur ber náttúrlega skylda til þess sem þjóðfélag að taka á með þeim sem glíma við erfiðleika sem steðja að vegna erfiðra lífsógnandi sjúkdóma. Ég er því bjartsýnn á að þingsályktunartillagan fái greiða leið í gegnum þingið og ég trúi ekki öðru satt að segja vegna þess að þetta er þarft mál sem hefði þurft að vera komið fram fyrir löngu.

Eins og ég benti á áðan hefur efnahagur landsins verið með þeim hætti fram undir síðustu ár að menn fóru kannski hægt af stað eftir hrunið sem hér varð, skiljanlega. En nú þegar hér er gott ástand aftur, sem betur fer, ber okkur skylda til að taka á með þeim sem glíma við lífsógnandi sjúkdóma. Í greinargerð sem fylgir tillögunni er ágætisyfirlit yfir það hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndunum sem við berum okkur mjög gjarnan saman við. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að reyna að fylgja þeim þjóðum sem fremstar fara í þessum málum, þ.e. í málum sem snerta heilsu þeirra sem glíma við hvað erfiðasta sjúkdóma.

Að því sögðu ætla ég að endurtaka að ég vona að tillagan fái greiða leið í gegnum þingið, hún verði tekin til góðrar og vandaðrar meðferðar í nefnd og komi síðan aftur inn í salinn þannig að við getum samþykkt hana hið allra fyrsta því að brýn nauðsyn er á að það sé gert. Sumir hópar í þjóðfélaginu eiga erfiðara með að bíða en aðrir og sá hópur sem glímir við krabbamein er einn af þeim hópum sem á erfitt með að bíða eftir ákvörðunum sem gætu bætt lífsgæði, lífskjör og lífsvonir. Ég segi aftur: Okkur ber skylda til að koma til móts við þennan hóp, við skulum afgreiða þetta mál hratt, herra forseti.