150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Ég er einn af stuðningsmönnum þessa frumvarps og styð það heils hugar. Við verðum að átta okkur á því að við erum að fjalla um einstaklinga sem eru veikir, veika einstaklinga sem eru háðir fíkniefnum. Það að refsa einhverjum fyrir að vera veikur er eiginlega held ég orðið gamaldags í dag og stenst ekki. Ef við horfum örstutt aftur í tímann og tökum bara áfengi sem dæmi, fólk getur verið með áfengissýki. Það dettur engum í hug að refsa fólki fyrir að vera með áfengissýki í dag. Því er hjálpað. Þess vegna eigum við auðvitað að hjálpa viðkomandi einstaklingum á öllum sviðum og við verðum líka að átta okkur á því og megum aldrei gleyma því að þessi einstaklingar sem við erum að tala um eru börn okkar, þetta eru systur, bræður, jafnvel feður barna og þetta fólk á fullkomlega rétt á að því sé hjálpað á allan hátt sem hægt er.

Þetta eru auðvitað mjög erfið mál og ég geri mér grein fyrir því vegna þess að ég var lögreglumaður í sjö ár og hef séð ýmislegt í gangi í því starfi. Það sem var kannski sorglegast við það var að í flestum tilfellum var verið að taka veika einstaklinga sem voru háðir þessu en ekki þá sem virkilega græða á því. Það er ömurlegt að við skulum búa í þannig þjóðfélagi að einhverjir geti hugsað sér að græða á því að koma öðrum í þær aðstæður sem hérna er um að ræða. Við eigum líka að koma á, og ég styð það heils hugar, neyslurýmum. Það segir sig sjálft að bara við það að koma þeim á og það sé sjálfsagður hlutur að einstaklingar geti óáreittir komist í neyslurými, fengið hreinar umbúðir og alls sé gætt, meira að segja að það sé möguleiki, ef illa fer, að fólki sé hjálpað einn, tveir og þrír, kemur okkur líka til góða vegna þess að það kemur þeim málum út af þeim svæðum sem við höfum séð í fréttum, það hafa t.d. fundist nálar og annað nálægt bæði leikskólum og við skóla og á öðrum stöðum þar sem börn eru að leik. Það er með ólíkindum að við skulum ekki vera löngu búin að grípa til þess ráðs að koma þessu fólki til hjálpar. Þess vegna eigum við líka að efla úrræði eins og Frú Ragnheiði. Það hefur verið sýnt fram á að það er stór hópur farinn að treysta þeim, sem treystir á að fá aðstoð þess góða hóps sem þar vinnur. Þetta er hið besta mál og ég vona heitt og innilega að það renni í gegn og við stöndum eftir með mun betra kerfi en við höfum í dag.