150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:40]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég ber virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum. Það er ólíkt hvernig við viljum tækla þetta viðfangsefni. Ég hjó samt eftir því að hv. þingmaður virðist vera sammála því að skaðaminnkandi aðferðafræði virki og sé rökrétt en einhverra hluta vegna virðist hann vera hræddur við að innleiða hana að fullu.

Hv. þingmaður talar um að það sé hætta á því að þarna úti séu efni sem drepa með einum skammti. Í flestum tilfellum, með því að hafa þetta allt saman ólöglegt, engar reglur í kringum þetta, bara villta vestrið og að við gerum þá sem eiga við fíknivanda að stríða og aðra sem nota vímuefni að glæpamönnum, á fólk ofboðslega erfitt með að átta sig á því hvaða efni það er að kaupa. Þetta er allt á svörtum markaði og þá er fólk oft að kaupa efni sem eru bara alls ekki það sem er auglýst og eru mjög skaðleg. Í flestum tilfellum er það á þann hátt sem fólk verður fyrir skaða við notkun vímuefna. Í sumum löndum geta vímuefnaneytendur sótt aðstoð á spítalann, fengið að greina efnin sem þeir versla til að passa upp á að þetta sé það sem þau halda að þetta sé og ekki eitthvað annað sem gæti verið banvænt eða mjög hættulegt vímuefnaneytendunum.

Skaðaminnkun felur í sér að við viðurkennum að fólk notar vímuefni, hvort sem okkur finnst það rétt eða ekki eða hvort við sem samfélag viljum það eða ekki. Það er að fara að gerast. Við sjáum það. Um 90% þeirra eiga ekki við neinn fíknivanda að stríða heldur geta notað vímuefni og eiga ekki við neina erfiðleika að stríða. Það eru hins vegar þessi um 10% sem mér skilst að séu í hættu á að eiga við fíknivanda að stríða. (Forseti hringir.) Spurningar mínar eru: Hvenær eigum við að taka skrefið? (Forseti hringir.) Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér ef við afglæpavæðum ekki neysluna? Hvernig sér hann fyrir sér að við verndum þessa einstaklinga og pössum upp á að þeir séu ekki að taka hættuleg efni?