150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

útlendingar.

94. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, um rétt barna til dvalarleyfis. Að málinu standa hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, Þorsteinn Víglundsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir auk þeirrar sem hér stendur. Frumvarpið var fyrst lagt fram á 147. löggjafarþingi. Þá var framsögumaður þess Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, en málið hlaut ekki afgreiðslu þá. Það hefur síðan verið lagt fram á 148. löggjafarþingi og fór til umsagnar og aftur á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er því ekki að furða að með því að leggja málið fram aftur er það einlæg ósk flutningsmanna að það komist að þessu sinni áleiðis í gegnum þingið.

Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það var fyrst lagt fram, m.a. til að bregðast við umsögnum sem fram komu um málið á 148. löggjafarþingi. Svo að ég fari aðeins yfir efnisatriði frumvarpsins sem er ekki langt þá er í því lagt til að 1. mgr. 69. gr. laga um útlendingamál orðist svo, með leyfi forseta:

„Börn íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt lögum þessum geta með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla, en til barna teljast börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri. Sama gildir um aðra nánustu aðstandendur íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. Til nánustu aðstandenda teljast maki, sambúðarmaki og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildir einnig um maka og sambúðarmaka þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr.“

Flutningsmenn leggja síðan jafnframt til breytingu á 1. mgr. 71. gr. laganna og hún orðast svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli laga þessara.“

Markmiðið með frumvarpinu er að gera að meginreglu að öll börn fólks sem hefur gilt dvalarleyfi á Íslandi, séu þau undir 18 ára aldri, hafi rétt á dvalarleyfi á grundvelli leyfis foreldra sinna. Þannig er tryggður réttur barna sem eiga foreldra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins til að fylgja foreldrum sínum til Íslands og tryggja þeim börnum vernd gegn aðskilnaði frá foreldrum, samanber 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Samkvæmt gildandi lögum um útlendinga er heimilt að gefa út varanlegt dvalarleyfi fyrir börn ef foreldrar hafa dvalarleyfi á grundvelli ýmissa tilgreindra aðstæðna. Þó er ekki svo að allir sem hafa leyfi til að vera fái að hafa börn með sér. Flutningsmenn leggja því til breytingar á núgildandi lögum með það fyrir augum að veita barni dvalarleyfi óháð því á hvaða grundvelli foreldri þess hefur dvalarleyfi.

Óneitanlega tyrfið orðalag frumvarpsins er til komið vegna þess hversu flókin og oft torskilin útlendingalögin okkar eru með síendurteknum tilvísunum á milli greina. Ég vil nota þetta tækifæri til að gagnrýna það. Það hefði verið hægt að orða breytingarnar með skýrari hætti ef lögin væru ekki í heild jafn óljós og raun ber vitni. Í þessari 1. gr. frumvarpsins, eins tyrfin og hún er, felst einfaldlega að börn yngri en 18 ára og á forsjá ríkisborgara eða dvalarleyfishafa geta fengið dvalarleyfi að uppfylltum grunnskilyrðum dvalarleyfis, á borð við þau að framfærsla og sjúkratryggingar séu örugg. Upptalning greina sem kemur síðar í ákvæðinu er hin sama og í núgildandi lögum og mun taka til annarra nánustu aðstandenda barna, þ.e. maka, sambúðarbarna og foreldra 67 ára og eldri. Réttarstaða þeirra verður því óbreytt. Þetta frumvarp rýmkar eingöngu rétt barna til dvalarleyfis á grundvelli leyfis foreldra sinna.

Herra forseti. Þegar frumvarpið var lagt fram á 148. löggjafarþingi komu þó nokkrar umsagnir eins og fyrr segir og mig langar að nefna nokkur atriði úr þeim sem brugðist var við. Barnaheill sendi inn stuðningsyfirlýsingu við frumvarpið og sagði að börn ættu að mati Barnaheilla í öllum tilfellum að fá dvalarleyfi hér á landi ef foreldrar þess hefðu dvalarleyfi, sæktist barnið og fjölskylda þess eftir því. Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar fagnaði frumvarpinu en benti þá á að enn vantaði nokkrar greinar fyrir fólk sem hefði tímabundin leyfi til að dvelja hér á landi og þá ætti réttur barna til að fylgja foreldrum sínum ávallt að vera tryggður. Þá fagnaði umboðsmaður barna frumvarpinu en benti á að það vantaði upp á að leyfa börnum að fylgja foreldrum sínum sem væru með tímabundið leyfi.

Þessum umsögnum hefur verið brugðist við og ef frumvarpið verður að lögum ætti börnum þeirra sem eru með gilt dvalarleyfi hér á landi óumdeilanlega að vera heimilt að fylgja foreldrum sínum að uppfylltum öðrum skilyrðum sem hér hafa verið nefnd.

Við tölum gjarnan um að Ísland sé land tækifæranna. Því fylgir að gera fólki sem við viljum fá til landsins það kleift að koma hingað án þess að þurfa við það tækifæri að skilja við fjölskyldu sína þótt tímabundið sé. Þá er mikilvægt að í allri löggjöf sé velferð barna höfð í hávegum. Meginreglan sem við þurfum að fylgja er að ávallt skuli hafa það sem barninu er fyrir bestu í forgangi. Lög sem mismuna fjölskyldum á grundvelli þess hvers eðlis dvalarleyfi foreldra er fylgja ekki slíkri meginreglu. Þegar um er að ræða skort á starfsfólki er ákvæði samkvæmt núgildandi lögum um að foreldrar með gilt dvalarleyfi megi ekki koma með börn til landsins en þegar um er að ræða dvalarleyfi á grunni sérfræðiþekkingar er ákvæði um að börnum sé leyfilegt að fylgja foreldrum hingað. Slík lög uppfylla ekki þessa skyldu, svo dæmi sé tekið.

Það er ósk flutningsmanna að málið fái góða yfirferð hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd og komi hingað aftur til 2. umr. svo fljótt sem auðið er.