150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

nýbygging Landsbankans.

[11:03]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Ég er meðvituð um reglu hæfilegrar fjarlægðar og mjög hlynnt henni. Ég kom sjálf að því að stofna þessa blessuðu Bankasýslu og er alveg sammála því að ráðherrar eiga ekki að vera að vasast í daglegum rekstri ríkisfyrirtækja, en ríkið hefur sett bönkunum eigendastefnu sem setur upp ramma sem Bankasýslunni og stjórnendum bankans er ætlað að starfa innan. Eigendastefna bankans ætti að sjálfsögðu að vera skýr um að ekki sé farið í svo galnar og kostnaðarsamar framkvæmdir. Í henni segir m.a.:

„Starfsemi fjármálafyrirtækja skal byggjast á markvissri stefnu og hagkvæmum rekstri sem skilar ávinningi til viðskiptavina og samfélagsins til lengri tíma.“

Höfuðstöðvar Landsbankans geta verið hvar sem er og það er mun ódýrara að byggja skrifstofuhúsnæði einhvers staðar í útjaðri byggðar, þess vegna á Raufarhöfn. Kemur til greina að mati ráðherrans að skerpa á eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og koma þeim skilaboðum á framfæri að svona byggingarævintýri banka í meirihlutaeign ríkisins gangi ekki svona fram af eigandanum, sem er sem sagt þjóðin?