150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans síðara andsvar. Þetta eru áhugaverðar umræður og ég hefði endilega viljað hafa meiri tíma til að svara hv. þingmanni. Það er svo margt sem felst í orðum hans. Auðvitað er hægt að endurvinna töluvert af þessu sorpi, málma og gler. Þetta skilar sér úr brennslunni. Það er hægt að gera þetta áður en það fer til brennslu en það verður alltaf eitthvað eftir. Hv. þingmaður sagði að þessar brennslur væru ekki fyllilega umhverfisvænar. Nei, þær eru það ekki og verða það trúlega aldrei. En urðun sorps skilar frá sér meiri gróðurhúsalofttegundum en brennsla. Annað sem hann segir er að niðurstaða sín sé sú að þetta gangi ekki og þess vegna sé hann á móti þessu. Eigum við ekki að leyfa ráðherra að skoða þetta áður en við komumst að niðurstöðu? Eigum við ekki að leyfa skoðun að fara fram áður en við ákveðum okkur í þessu máli? Ég vil a.m.k. að gera það.

Öskuna sem frá þessum brennslum kemur er hægt að nota að hluta. Jú, það er hægt, herra þingmaður. Hagkvæmnin lítil? Hagkvæmni verður auðvitað aldrei mjög mikil í förgun sorps. Það þarf alltaf að borga eitthvað með þessu. Það er alveg rétt. Hverju munu nýir urðunarskattar, sem ríkisstjórnin áformar að leggja á frá næstu áramótum, skila miðað við þær tillögur sem lagðar hafa verið fram? Þeir munu skila 2,7 milljörðum kr. á ári. Hvað erum við fljót að byggja slíka stöð, þó ekki sé stærri en ég nefndi áðan, fyrir það fjármagn? Eða hvert á það fjármagn að renna? Ég tel að það sé best að það renni í lausnir á því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir.