150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

85. mál
[16:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þ.e. hækkun bótagreiðslna. Flokkur fólksins stendur að þessu frumvarpi og er það löngu tímabært og kannski sérstaklega vegna þess að það er lagt fram mánuði fyrir dag gegn einelti, og kynferðislegri áreitni eða ofbeldi, sem er 8. nóvember ár hvert, sem sagt eftir réttan mánuð.

Hvað erum við í sjálfu sér að ræða hér og hvers vegna viljum við breyta þessu bótakerfi? Þetta er bótakerfi sem bætir fyrir á einhvern hátt það ofbeldi sem fólk hafa orðið fyrir. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ingu Sæland erum við að hækka bætur fyrir líkamstjón og miska, missi framfæranda og útfararkostnað. Þetta hefur ekki hækkað síðan árið 2012. Það sem er eiginlega furðulegast við þetta er að allt það sem virðist heita bætur hjá ríkinu gleymist, þær bætur verða einhvern veginn eftir á og það gleymist að uppfæra þær og þær detta bara út. Hvort þetta er sparnaðarleið, hugsanavilla eða eitthvað sem hefur gleymst í þessu máli veit ég ekki. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt vegna þess að ef við viljum og getum fundið það út og teljum að við séum að búa til einhvern ramma um það að bæta einhverjum eitthvert tjón, af hverju eigum við þá að bæta það með nákvæmlega sömu upphæð árið 2019 og árið 2012? Það stenst ekki. Ef við ætlum að tryggja að viðkomandi fái þær bætur sem hann á rétt á hljótum við að tryggja að þær séu jafn mikils virði árið 2019 og þegar upphæðirnar voru ákveðnar á árið 2012.

Við getum talað um ýmsa bótaflokka. Það hefur t.d. mikið verið rætt um sanngirnisbætur. Ég tel að miða eigi þær við þennan bótaflokk. Við erum að tala um fólk sem hefur lent í ótrúlegum raunum, sem hefur orðið fyrir ótrúlega miklu ofbeldi, ekki bara fullorðið fólk heldur börn. Það er með ólíkindum að við skulum hafa þessar bætur svona smánarlega lágar. Við erum ekki að tala um einhverjar rosalegar fjárhæðir í þessu samhengi. Við erum að tala um að í stað 5 milljóna komi 8 milljónir fyrir líkamstjón, tjón sem veldur viðkomandi einstaklingi vanlíðan og raskar kannski lífi hans til fjölda ára, alveg frá því að tjón verður og jafnvel þar til viðkomandi er ekki í þessum heimi lengur. Við erum að tala um miskabætur, í stað 3 milljóna verði þær 6 milljónir. Fyrir útfararkostnað og missi framfæranda úr 250.000 kr. í 400.000 kr. Þetta eru lágar upphæðir, tiltölulega lágar og það ætti í sjálfu sér að fljúga í gegn vegna þess að það er bara sanngjarnt að við sjáum til þess að þeir sem verða fyrir slíku tjóni fái bætur og þó að þær séu smánarlega lágar skipta þær örugglega marga gífurlega miklu máli.

Við verðum að átta okkur á því að þeir sem verða fyrir ofbeldi verða fyrir gígantískum kostnaði. Það er auðvitað það ömurlegasta sem maður getur lent í, og ég tala þar af eigin reynslu, að eiga rétt á bótum en fá þær ekki. Maður verður fyrir kostnaði og sá kostnaður lendir kannski á bótagreiðslum eða lífeyri frá Tryggingastofnun, lífeyrir rýrnar bara vegna þess að viðkomandi fær ekki greiddar sanngjarnar og réttlátar bætur sem hann á rétt á. Í þjóðfélagi eins og við lifum í í dag er það hreinlega ömurlegt. Það er lágmarkskrafa að viðkomandi komi nokkurn veginn út á sléttu og verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni af því að lenda í hvers konar tjóni. Við erum að búa til kerfi sem á að bæta það en því miður virðist það ganga mjög illa. Orð eins og bætur eða að bæta eitthvað er eins og eitthvert fúkyrði og aukaatriði sem þurfi ekki að fylgja neinum almennum hækkunum.

Ég vona að frumvarpið fljúga í gegn og að við sjáum sanngirnina í því að hækka þessar bætur um þá smáaura sem við erum að tala um hér.