150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnaverndarlögum sem varðar tálmun eða takmörkun á umgengni þar sem viðurkennt verði í lögum að það sé brot gegn barni að vera svipt öðru foreldri. Sambærilegt frumvarp var lagt fram á 146. þingi en hlaut ekki afgreiðslu þá vegna mikillar andstöðu margra þingmanna. Hér má segja að hafi verið málþóf til að koma í veg fyrir að þetta mál kæmist til nefndar. Það var aftur flutt á 149. löggjafarþingi með nokkrum breytingum til að koma til móts við andstæðinga frumvarpsins og þá sem höfðu efasemdir um það. Þá var í fyrsta lagi um að ræða að samræma öll brot gegn börnum, samræma refsirammann um öll alvarleg brot gegn börnum þannig að við slíkum brotum væri sami refsiramminn. Einnig var gildissvið frumvarpsins víkkað út þannig að ákvæðið væri ekki lengur einskorðað við þær aðstæður þegar lögheimilisforeldri tálmar eða takmarkar umgengni heldur næði það jafnframt til tálmunar eða takmörkunar á umgengni af hálfu umgengnisforeldris, sem er auðvitað alveg rökrétt. Í þriðja lagi var lagt að refsing gæti varðað sektum og fangelsi í allt að fimm ár og að lokum að kæruheimild yrði hjá Barnavernd. Þá er tryggt að menn séu ekki að kæra bara út suður sisona til að koma höggi á fólk heldur væri málið búið að vera í skoðun hjá Barnavernd, hvort tálmun væri fyrir hendi eða ekki. Það skiptir máli að mál hafi verið skoðuð.

Frumvarpið er til að tryggja að barn fari ekki á mis við þá umgengni sem gagnast barninu best og undirstrika að tálmun og takmörkun á umgengni er brýnt brot á forsjárskyldum foreldris. Það kann að vefjast fyrir einhverjum hvað felist í tálmun eða takmörkun á umgengni en það er þegar foreldri veldur því með einum eða öðrum hætti að úrskurður, dómur, dómsátt eða samningur aðila verður ekki framkvæmdur. Lykilatriði varðandi það að um sé að ræða brot foreldris, hvort sem það er lögheimilisforeldri eða umgengnisforeldri, er að fyrir liggja þessi atriði, úrskurður, dómur þar sem búið er að fara yfir málið og það er komin niðurstaða en lögheimilisforeldri eða umgengnisforeldri fer ekki eftir þeim úrskurðum eða dómum.

Það hefur komið mjög á óvart — alla vega hér áður — hve mikil andstaða hefur verið hjá mörgum þingmönnum sem ýmist kenna sig við kvenréttindi eða einhvers konar femínisma, eins og kallað er á útlensku, sem líta á þetta sem aðför að kvenréttindum, réttindabaráttu kvenna. Þá upplifði maður að þetta fólk liti svo á að börn væru einkamál kvennanna. Samfélagið er auðvitað mjög breytt og báðir foreldrar taka miklu meiri þátt í uppeldi og umönnun barna nú en áður. Þá má ætla að ef barnið er svipt möguleikanum á að umgangast annað foreldri sé það mikið áfall fyrir barnið. Það verði að flokkast sem brot gegn því eins og önnur vanrækslubrot gegn börnum sem geta verið með ýmsum hætti. Það þarf að taka á því.

Það er ekki þar með sagt að það þýði að lögreglan taki börn af heimilum. Það er ekki þannig. Þetta er allt skoðað nákvæmlega og fólki gefinn kostur á að láta af tálmun. Það kann að vera að úrræði sem yrði notað áður en kæmi til einhvers konar ákæru sé að breyta þá bara forsjánni ef staðan er sú hjá öðru foreldrinu að það tálmar. Þetta er allt út af fyrir sig mjög eðlilegt. Það væri þá ekki nema ef fólk bryti með grófum hætti gegn þessum skyldum sínum og gegn barninu að kæmi til einhverrar ákæru. Það væru þá alvarleg brot og ítrekuð.

Fjöldi mála af þessu tagi er í gangi á hverjum tíma. Í greinargerð er vitnað í tölur um úrskurði um umgengni og umgengni við umgengnisforeldra og hversu margar kröfur hafi verið lagðar fram á árunum 2007–2016 um beitingu dagsekta til að þvinga fram umgengni. Það eru 550 kröfur um beitingu dagsekta. Þetta eru tíu ár. Það eru þá að meðaltali rúmlega 50 ný mál á ári þar sem talið er að einhvers konar tálmun sé í gangi. Þetta er mikill fjöldi mála og ég tel að með frumvarpi af þessu tagi taki löggjafinn afstöðu og segi: Við ætlum ekki að láta viðgangast að annað foreldrið tálmi með þessum hætti umgengni barns við hitt foreldrið. Ég held að það muni hafa mikið forvarnagildi ef löggjafinn samþykkir frumvarp af þessu tagi. Það leysir ekki öll mál en við getum ekki látið þetta viðgangast. Margir hafa sagt að með þessu frumvarpi sé verið að tryggja að ofbeldismenn geti haft umgengni við barnið. Menn verða ekki ofbeldismenn af því að annað foreldrið segi að hitt sé það. Ef við færum í þann farveg að það yrði bara látið ráða og það dygði fyrir foreldra að segja að hitt foreldrið væri ofbeldismaður gætu foreldrar sem hefðu umgengnisrétt bara sagt það sama: Ég skila ekki barninu af því að lögheimilisforeldrið beitir það ofbeldi. Þá erum við komin í eitthvert frumskógarlögmál sem er engum til gagns.

Ég held að það sé mikilvægt að foreldrar komist ekki upp með það að taka völdin með þessum hætti og stjórnvöld séu algjörlega úrræðalaus. Það verður einfaldlega að taka á þessum málum og ég get alveg fullyrt það við þá sem eru í salnum að ef umgengnisforeldri myndi segja: Ég skila ekki barninu vegna þess að lögheimilisforeldri beitir það ofbeldi, yrði barnið bara sótt þangað. Ég er algjörlega klár á því að forsjárforeldri þyrfti ekki að una því að umgengnisforeldri gæti einfaldlega sleppt því að skila barninu. (Gripið fram í: Er það ekki eins hjá …?) Nei, lögheimilisforeldri gæti örugglega kallað til lögreglu og látið sækja barnið, alveg eins og ekki er heldur hægt að ræna börnum. Það kann vel að vera að einhverjir myndu farið í innsetningargerð en hún myndi þá ná fram að ganga. Það þýddi ekkert fyrir umgengnisforeldrið að halda einhverju fram um ofbeldi lögheimilisforeldris. Það gengur bara ekki þannig fyrir sig.

Það er mikilvægt í þessu tilviki að löggjafinn sendi frá sér skýr skilaboð um að háttsemi af þessu tagi verði ekki liðin og það er kominn tími til að tekið verði á þessum brotum gegn börnum með skýrum hætti. Það er raunverulega ekki seinna vænna að gera það en á þessu þingi.