150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

kjör öryrkja.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á kjörum örorkulífeyrisþega. Hann spyr: Hvað er ríkisstjórnin búin að gera? Við skulum fara yfir það fyrir hv. þingmann. Við skulum byrja á að fara yfir þær skattkerfisbreytingar sem verða innleiddar um áramótin og gagnast tekjulágum langbest og skila mestri skattalækkun m.a. til örorkulífeyrisþega og annarra tekjulágra hópa. Við skulum tala um barnafólk í hópi örorkulífeyrisþega. Það hefur verið sýnt fram á nákvæmlega það sem ég hef iðulega rætt hér, að börn öryrkja standa verr. Einmitt þess vegna er ekki bara verið að horfa á skattkerfisbreytingar sem gagnast tekjulágum best heldur líka sérstakar barnabætur sem eru miðaðar að tekjulágum. Ræðum um greiðsluþátttöku öryrkja og aldraðra í heilbrigðiskerfinu. Hvað hefur gerst síðan þessi ríkisstjórn tók við? Jú, það hafa verið stigin markviss skref á hverju ári til að draga úr greiðsluþátttöku, kostnaði þessa fólks við að sækja sér læknisþjónustu, m.a. til heilsugæslunnar núna síðast. Þar er verið að stíga raunveruleg skref og stefnt að því að kerfið okkar verið í ætt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Horfum síðan til þeirra 4 milljarða kr. á ársgrunni sem verið er að setja inn í þetta kerfi til þess að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega sem hefur verið þeirra stóra baráttumál. Hver er að bregðast við því? Hver er að bregðast við þeirri kröfu eftir margra ára baráttu gegn þeim skerðingum? Það er þessi ríkisstjórn sem er loksins að draga úr þeim skerðingum. Og ég er ekki einu sinni byrjuð að ræða hvað er verið að gera til að styrkja félagslega húsnæðiskerfið. Skiptir það máli fyrir tekjulágt fólk almennt? Já. Skiptir það máli fyrir örorkulífeyrisþega? Svo sannarlega. Við eigum ekki að stilla tekjulágum hópum upp hverjum á móti öðrum. Það eigum við ekki að gera. Við eigum að horfa til þess hvernig við getum aukið jöfnuð í samfélaginu. Allar þessar aðgerðir sem ég nefndi munu skipta máli fyrir tekjulágt fólk og gera líf þess betra.